Trustly innleiðir hugbúnaðarlausnir Lucinity

Samstarf Lucinity og Trustly er ætlað að stuðla enn frekar …
Samstarf Lucinity og Trustly er ætlað að stuðla enn frekar að því að Trustly nái yfirlýstum markmiðum um að veita viðskiptavinum sínum örugga og jákvæða upplifun í greiðslulausnum. Samsett mynd/Aðsend/skjáskot/Trustly

Alþjóðlega greiðsluþjónustufyritækið Trustly hefur skrifað undir samning við íslenska
nýsköpunarfyrirtækið Lucinity um innleiðingu á hugbúnaðarlausnum þess.

Markmið Trustly með samstarfinu er að efla varnir félagsins gegn fjárglæpum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lucinity.

Trustly er eitt af mest ört vaxandi fyrirtækjum í Evrópu og hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir nýsköpun í greiðslulausnum. Fyrirtækið leggur áherslu á að vera leiðandi aðili á fjármálamarkaði þegar kemur að baráttu gegn fjárglæpum.

Trustly geti veitt viðskiptavinum örugga og jákvæða upplifun

Í tilkynningunni segir að samstarf félaganna tveggja stuðli enn frekar að því að Trustly nái yfirlýstum markmiðum um að veita viðskiptavinum sínum örugga og jákvæða upplifun í greiðslulausnum.

Lucinity var stofnað árið 2018 og hefur á skömmum tíma byggt upp traust fjármálafyrirtækja
um allan heim, bæði stórra banka og fjártæknifyrirtækja.

Meðal núverandi erlendra viðskiptavina Lucinity má nefna Goldman Sachs, Visa og norræna fjártæknifyrirtækið Pleo. Á Íslandi má nefna Arion banka, Kviku, Indó og Sparisjóðina.

Hugbúnaðarlausnir Lucinity umbreyta störfum sérfræðinga sem vinna í forvörnum fjárglæpa
með því að gera flókin gögn aðgengileg í rauntíma, einfalda greiningarvinnu og draga verulega úr þeim tíma sem fer í ákvarðanatöku.

Stolt af því að vera treyst fyrir að efla varnir Trustly

Haft er eftir Guðmundi Kristjánssyni, stofnanda og forstjóra Lucinity, í tilkynningunni að mikil spenna sé fyrir samstarfinu við Trustly innan Lucinity.

„Við erum stolt af því að okkur sé treyst fyrir því verkefni að efla varnir þeirra gegn fjárglæpum enn frekar. Trustly er á spennandi vegferð og er að vaxa á ógnarhraða á heimsvísu. Okkar lausnir eru hannaðar með það fyrir augum að geta aðlagast sífellt breytilegu landslagi regluverks og fjárglæpa, og veitir þannig Trustly trausta lausn sem verndar rekstur þeirra til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK