Íslenska fyrirtækið CRI sem sérhæfir sig í hagnýtingu koltvísýrings hefur undirritað samning við P1 Fuel um sölu á búnaði til framleiðslu á rafeldsneyti fyrir akstursíþróttir.
ETL tækni CRI umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu. Þessi aðferð hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið harðefnaeldsneyti, segir í tilkynningu til fjölmiðla.
Samningurinn var undirritaður á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28 við P1Fuels um afhendingu á framleiðslubúnaði og þjónustu við uppsetningu á rafeldsneytisverksmiðju í Þýskalandi.
P1 er leiðandi í framleiðslu á eldsneyti fyrir bílaiðnaðinn sem ekki er unnið úr olíu. Eldsneyti P1 hefur verið notað í alþjóðlegum akstursíþróttum síðan 2018, knúið kappakstursbíla, klassísk farartæki og er samþykkt af yfir 20 bílaframleiðendum. Þá er P1 einn aðal eldsneytisbirgir ýmissa alþjóðlegra akstursíþrótta, þar á meðal FIA World Rally Championship og FIA Karting Championship meðal annars.
Í tilkynningu er haft eftir Björk Kristjánsdóttur, forstjóra CRI sem segir: „Við erum afar ánægð með samstarfið við P1 og að geta nýtt tækni okkar í þetta verkefni. Enn fremur sýnir samstarfið fram á fjölbreytileika ETL tækni CRI sem spilar mikilvægt hlutverk í orkuskiptum og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við þurfum að nýta núverandi og viðurkennda tækni sem til er í dag og grípa til aðgerða.“
CRI mun afhenda P1 raf-metanól framleiðslueiningu og beinist samstarfið að samþættingu á tækni beggja félaga þar sem Emission-to-Liquids (ETL) tæknin er notuð með sérstakri bensíntækni P1 til að framleiða rafeldsneyti sem hægt er að nota í bíla án þess að breyta vélum þeirra. Með því að nýta tækni beggja aðila verður kleift að framleiða tilbúið bensín úr metanóli, sem eingöngu er unnið úr koltvísýringi og vetni.
CRI mun einnig vinna náið með P1 Fuels til að tryggja hnökralausa uppsetningu, veita rekstrarstuðning á upphafsstigum og þjálfa teymi P1 fyrir hámarksafköst verksmiðjunnar, segir enn fremur í tilkynningu.