Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, Elfa Ólafsdóttir, Héðinn Jónsson og Gunnar Ingi Widnes Friðriksson hafa á undanförnum mánuðum verið ráðin til starfa í stjórnendateymi Helix.
Helix er nýtt og sjálfstætt heilbrigðistæknifyrirtæki stofnað í kringum heilbrigðislausnir Origo. Markmið félagsins er að flétta saman tækni, hugviti og innsæi til að bæta líf þeirra sem þiggja og veita heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Helix.
Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir tekur við starfi mannauðstjóra Helix. Hún hefur víðtæka reynslu af mannauðsstjórnun innan tæknigeirans, bæði hér á landi og erlendis. Ingibjörg starfaði áður sem breytingaleiðtogi innan Origo þar sem hún tók þátt í að leiða sjálfstæðisvegferð Helix, auk þess starfaði hún um árabil hjá Spotify.
Ingibjörg lauk viðskiptafræðidiplómu með áherslu á stjórnun frá International Business Academy, hún lagði einnig stund á viðskiptafræði í Háskólanum í Bifröst.
Elfa Ólafssdóttir var ráðin sem markaðsstjóri Helix í október. Hún mun stýra markaðsmálum og stefnumótun á vörumerki fyrirtækisins. Elfa sinnti áður markaðsmálum hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health og starfaði sem markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni.
Elfa er hjúkrunarfræðingur að mennt auk þess sem hún er með meistaragráðu í alþjóða markaðssetningu frá Emerson College í Boston.
Héðinn Jónsson var ráðinn sviðsstjóri Sögu í nóvember. Hann leiðir hópinn sem er ábyrgur fyrir þróun Sögu hugbúnaðarins. Saga er útbreiddasta rafræna sjúkraskrárkerfið á landinu og er notað á öllum helstu heilbrigðisstofnunum og heilsugæslum landsins, fjölda einkarekinna stöðva og á hjúkrunarheimilum.
Héðinn hefur um 20 ára reynslu í velferðartæknigeiranum. Hann starfaði áður hjá Sidekick Health og Landlæknisembættinu. Héðinn er menntaður sjúkraþjálfari og með MS-gráðu í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands.
Gunnar Ingi Widnes Friðriksson var ráðinn sem tæknistjóri Helix í október og ber hann ábyrgð á að leiða stefnu Helix í tæknimálum. Gunnar hefur starfað í heilbrigðisupplýsingatæknimálum í 25 ár og var meðal annars ráðgjafi fyrir hönd Íslands hjá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við ýmis heilbrigðistækniverkefni í Covid faraldrinum. Gunnar er með BSc gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.
„Við erum gríðarlega ánægð að fá þennan öfluga hóp sérfræðinga til liðs við stjórnendateymi Helix á þessum tímamótum í sögu fyrirtækisins,“ er haft eftir Örnu Harðardóttur, framkvæmdastjóra Helix.