Hækka tilboð í Marel um 8%

Marel hefur borist uppfærð óskuldbindandi viljayfirlýsing frá John Bean Technologies …
Marel hefur borist uppfærð óskuldbindandi viljayfirlýsing frá John Bean Technologies Corporation („JBT“) varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu. mbl.is/Hjörtur

John Bean Technologies Corporation (JBT) hefur sent Marel uppfærða óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Marels til Kauphallarinnar.

„Í viljayfirlýsingunni kemur skýrt fram að ekki sé um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu og að verði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að í uppfærðu viljayfirlýsingunni sé vísað til óafturkallanlegrar yfirlýsingar Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um stuðning þess við fyrri viljayfirlýsingu sem og betra tilboð frá JBT ef svo bæri undir. 

„Jafnframt er í viljayfirlýsingunni vísað til samkomulags Eyris Invest hf. og JBT um að Eyrir gangi ekki til viðræðna við aðra en JBT um sölu hlutafjár Eyris í Marel.“

Lykilskilmálar

JBT buðu áður 3,15 evrur á hlut (482kr), en núna 3,4 evrur eða 511, sem samsvarar um 8% hækkun.

Í viljayfirlýsingunni koma fram eftirfarandi lykilskilmálar, sem háðir eru jákvæðri afstöðu stjórnar Marel:

  1. Fyrirvarar: Óskuldbindandi viljayfirlýsingin kveður á um að valfrjálst yfirtökutilboð verði aðeins lagt fram að undangenginni ásættanlegri niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og stjórnarsamþykki JBT. Þá kemur fram að mögulegt valfrjálst yfirtökutilboð JBT, þegar og ef það verður lagt fram, verði háð eftirfarandi fyrirvörum:
    1. Samþykki viðeigandi eftirlitsaðila
    2. Samþykki hluthafa JBT
    3. Að a.m.k. 90% hluthafa Marel samþykki tilboðið
  2. Tillaga að verðmati/greiðslufyrirkomulagi: Í óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT er fyrirhugað verð 3,40 evrur á hlut (511 krónur á hlut miðað við skiptigengi ISK/EUR 150,3), fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel. Þá er tillaga JBT að verðmati byggð á þeirri forsendu að útistandandi hlutir í Marel séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra.
  3. Endurgjald: Óskuldbindandi viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir sveigjanleika í samsetningu endurgjalds eða að allt að 50% af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og allt að 100% verði í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi JBT og Marel. Það kemur jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga u.þ.b. 38% af hlutum í sameinuðu félagi eftir möguleg viðskipti ef byggt er á 25% hlutfalli reiðufjár og 75% í hlutabréfum. Ef byggt er á 100% greiðslu í hlutabréfum myndu hluthafar Marel eiga um 45% hlutafjár í sameinuðu félagi. Engar frekari upplýsingar koma fram eða liggja fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi.
  4. Annað: JBT er tilbúið að íhuga skráningu á Nasdaq Iceland til viðbótar við núverandi skráningu hlutabréfa JBT á New York Stock Exchange (NYSE).

Meta yfirlýsinguna af kostgæfni

Í tilkynningunni segir að Marel muni meta viljayfirlýsinguna af kostgæfni með hliðsjón af  langtímahagsmunum félagsins og allra hluthafa þess.

Þá er tekið fram að ekki liggi fyrir nein vissa um hvort yfirlýsingin muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða skilmála þess.

„Marel mun halda markaðsaðilum tímanlega upplýstum um gang mála í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu félagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka