Stjórn Sýnar hefur ákveðið að taka framtíðar eignarhald og stefnu vefmiðla og útvarps til frekari skoðunar. Er sú ákvörðun grundvölluð á greiningu Kviku banka sem vann að greiningu á rekstri og virði vefmiðla og útvarps.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.
Greint var frá því í byrjun nóvember að Sýn hefði skipt fjölmiðlaeignum félagsins upp í tvær rekstrareiningar, annarsvegar vefmiðla og útvarp og hins vegar Stöð 2. Fól þá stjórn Sýnar Kviku banka að vinna greiningu. Í því felst meðal annars miðlun afmarkaðra fjárhagsupplýsinga til mögulegra fjárfesta.
Nú hefur félagið ráðið fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka til ráðgjafar við umrædda vinnu, þar með talið til að annast samskipti í tengslum við vænta upplýsinga miðlun.