Seðlabanki Noregs hækkaði stýrivexti sína í morgun upp í 4,5 prósent og kom með því nokkuð á óvart eftir yfirlýsingu við síðustu vaxtaákvörðun, 1. nóvember, þess efnis að vextirnir skyldu halda 4,25 prósenta stöðu sinni út árið hið minnsta. Talar viðskiptavefritið E24 um „ískalda jólagjöf“ bankans til þjóðarinnar.
Spurningin hvort fasteignalánin verði nú enn dýrari eða bankinn láti gott heita að sinni brennur á norskum neytendum síðustu dagana fyrir hátíð ljóss og friðar en seðlabankinn hefur hækkað vexti sína þrettán sinnum á tveggja ára tímabili og gerði meirihluti greinenda ráð fyrir að stofnunin vægði nú og stæði við orð sín frá nóvemberbyrjun.
Töldu greinendur SR-Bank 86 prósenta líkur á að vextirnir yrðu 4,25 prósent áfram og í síðustu viku var allt talið benda til kyrrstöðu að þessu sinni.
Þá hafa norsk fyrirtæki þegar reiknað með að vöxtur þeirra standi í stað eða verði að minnsta kosti takmarkaðri en það sem seðlabankinn hefur lagt til grundvallar auk þess sem launahækkanir verði skornar við nögl.
„Væntingar fyrirtækjanna voru mjög neikvæðar og dimm ský hrannast víða upp í efnahagslífinu,“ segir Tore Vamraak, yfirhagfræðingur Sparebanken Sør og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en er þó ekki mótfallinn hækkun dagsins.
„Engu að síður tel ég það sterkan leik hjá Seðlabanka Noregs að hækka stýrivextina með tilliti til stöðu [norsku] krónunnar og verðbólgumarkmiðsins,“ segir hagfræðingurinn.
Olíuverð hefur farið lækkandi upp á síðkastið og norska krónan veikst um nokkuð langa hríð. „Stýrivaxtanefndin mun að líkindum einnig líta til þess að atvinnuleysi er enn svo lítið sem 1,9 prósent,“ sagði Vamraak við NRK áður en nefndin tilkynnti ákvörðun sína í morgun.
Telur hann enn fremur mikilvægt að hækki bankinn vextina enn einu sinni gefi hann jafnframt skýr skilaboð um að nú sé toppnum náð.