Íslenska nýsköpunarfyrirtækið DTE er í aðalhlutverki í einni af nýrri röð heimildarmynda sem sýndar eru á einni vinsælustu sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, CBS.
Þáttaröðin sem um ræðir ber heitið „Innovation and Disruption Leaders“ og fjallar hún um einstaklinga og fyrirtæki sem freista þess að endurmóta heilu atvinnugreinarnar og ögra mörkum þess sem mögulegt er.
Í tilkynningu sem DTE sendi frá sér í dag segir að íslenska fyrirtækið sé á meðal þeirra fyrirtækja sem fjallað er um í þáttaröð CBS, en þátturinn sem fjallar um fyrirtækið var sýndur á sjónvarpsrásinni í gær, 13. desember 2023.
Í þættinum gefst áhorfendum kostur á að skyggnast bak við tjöldin hjá íslensku hátæknifyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir tímamótaframlag sitt til áliðnaðarins og möguleika þess á að umbreyta málmiðnaði á heimsvísu.
Þar er meðal annars rætt vð Derek Prichett, yfirforstjóra fyrirtækjaþróunar hjá Novelis, stærsta endurvinnsluaðila áls í heiminum og einn fjárfesta DTE, um möguleika DTE til að umbreyta málmvinnslu og að aðstoða málmframleiðendur við að minnka kolefnisspor þeirra.
Fram kemur í tilkynningu DTE að starfsemi fyrirtækisins sé einstök vegna þess að aldrei áður hafi verið hægt að efnagreina samsetningu fljótandi málma með sömu nákvæmni og tæki sem efna greina steypt sýni.
Þar að auki skili tæknilausnir fyrirtækisins sér í rauntíma sem þýði að hægt sé að taka skilvirkari ákvarðanir, auka yfirsýn yfir vörugæði, greina frávik fyrr, hámarka afköst og bæta öryggi starfsfólks.
„Það er ótrúlegur heiður að vera hluti af þessari heimildamyndaröð og þetta er mikil viðurkenning á því að við erum á réttri leið í okkar vinnu,“ er haft eftir Karli Ágústi Matthíassyni, framkvæmdastjóra DTE í tilkynningu fyrirtækisins.
„En það er líka ánægjulegt að vita til þess að heimildamyndin mun vekja meiri athygli á okkar góða fólki, hæfileikum þess og ástríðu fyrir því að bæta heiminn.“