TimeXtender kaupir íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki

Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Exmon Software, og Kristinn Már Magnússon, …
Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Exmon Software, og Kristinn Már Magnússon, tæknistjóri fyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend

Danska hugbúnaðarfyrirtækið TimeXtender hefur keypt íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Exmon Software. Kaupverð er trúnaðarmál en velta íslenska fyrirtækisins í fyrra nam 235 milljónum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu Exmon Software.

Hjá félaginu starfa 14 sérfræðingar í hugbúnaðarþróun og –sölu en aðalsöluvara fyrirtækisins er hugbúnaðarlausnin Exmon sem er lausn í gagnagæðum og gagnaumsjón. Í tilkynningunni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að starfsemi verði áfram á landinu.

„Við hlökkum mikið til samstarfsins. Menning fyrirtækjanna byggir á líkum grunni og innan þeirra er mikil þekking á stjórnun og notkun gagna sem er hratt vaxandi viðfangsefni í nútímarekstri. Við eigum eftir að gera góða hluti saman sem nýtast viðskiptavinum bæði hér heima og erlendis,“  er haft eftir Gunnari Steini Magnússyni, framkvæmdastjóra Exmon Software.

Yfir 3.000 viðskiptavinir um heim allan

TimeXtender er danskt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar sjálfvirknivæðingarlausnir sem einfaldar og flýtir ferlum í uppbyggingu á vöruhúsi gagna. Hugbúnaðinn nota yfir 3.000 viðskiptavinir víðs vegar um heiminn, að er kemur fram í tilkynningunni.

„Ég er sannfærður um að með sameiningu við TimeXtender náum við sameiginlega að búa til mjög öflugt og spennandi lausnaframboð fyrir okkar viðskiptavini,“ er haft eftir Kristni Má Magnússyni, tæknistjóra Exmon Software.

Exmon Software var stofnað af ráðgjafarfyrirtækinu Expectus árið 2014 sem dótturfélag en hefur verið rekið í aðskildu eignarhaldi undanfarin tvö ár.

„Með sameiningu við Exmon erum við að taka stórt skref í að auka virði okkar lausnaframboðs. Lausnin okkar innifelur nú bætt stjórnkerfi gagna sem einfaldar verulega alla umsýslu gagna fyrir okkar viðskiptavini,“ er haft eftir Heine Krog Iversen, framkvæmdastjóra hjá TimeXtender.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK