Telur JBT og Marel eiga vel saman

Marel.
Marel. mbl.is/Hjörtur

„John Bean Technologies Corporation (JBT) og Marel eiga afskaplega vel saman og því er eðlilegt að þessi tvö öflugu fyrirtæki ræði samruna sín á milli.”

Þetta segir Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Eyris Invest, í samtali við mbl.is, spurður um yfirtökutilboð bandaríska félagsins JBT í allt hlutafé Marels. Eyrir Invest er sem kunnugt er stærsti hluthafi Marels og á um fjórðungshlut í félaginu.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að margir af núverandi hluthöfum Marels bæði stórir og smáir séu jákvæðir gagnvart uppfærðu yfirtökutilboði bandaríska félagsins JBT. Viðmælendur blaðsins úr hópi hluthafa vænta þess að stjórn Marels samþykki að hefja viðræður við JBT, þó að enn eigi eftir að koma í ljós hvort þeim viðræðum ljúki með yfirtöku félagsins á Marel og þá á hvaða gengi.

„JBT er fjárhagslega sterkt fyrirtæki og mun vafalaust láta til sín taka í þeirri samrunaþróun sem er fyrirsjáanleg á þessum markaði. Með samruna fæst einnig aðgangur að hlutabréfamarkaði í New York og einnig er stefnt að skráningu hér á landi,” segir Friðrik og bætir við að JBT hafi verið boðið aukinn sveigjanleiki við greiðslu og hækkað tilboð frá því sem áður var.

Friðrik segir jafnframt að hann reikni með að stjórn Marels gangi til viðræðna við JBT enda sé tímasetningin góð og fyrirtæki á þessum markaði þegar byrjuð að tala saman.

JBT sendi sem kunnugt er inn uppfærða óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels seint í fyrrakvöld. Fyrirhugað verð í tilboðinu er 3,4 evrur á hvern hlut, eða um 511 krónur. Það er um 8% hærra en tilboðið sem JBT gerði í allt hlutafé í Marel þann 24. nóvember sl., en stjórn Marels hafnaði því tilboði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK