Ólöf Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Íslandsbanka, en hún var áður framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kviku auk þess að hafa gegnt þar ýmsum öðrum stjórnunarstörfum og leitt nýsköpun og þróun fjármálalausna.
Greint er frá ráðningu Ólafar í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar, en samhliða því sendi Kvika út tilkynningu um starfslok hennar.
Ólöf tekur við stöðunni í Íslandsbanka af Sigríði Hrefnu Hrafnkelsdóttur, en greint var frá því að hún hefði hætt hjá Íslandsbanka í nóvember og tekið við sem forstjóri Nóa Síríusar.
Ólöf er með B.Sc gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc gráðu í aðgerðargreiningu frá London School of Economics. Þá hefur hún einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Í tilkynningu Kviku kemur fram að Sigurður Viðarsson, aðstoðarforstjóri Kviku, muni gegna stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs þar til ráðið verður í starfið.