Newrest Group, eitt fremstu fyrirtækja heims í rekstri flugeldhúsa, tekur við rekstri flugeldhúss Icelandair. Fyrirtækið annast meðal annars framleiðslu veitinga um borð í flugum SAS, Delta, United Airlines og Air Canada.
Flugeldhúsið er eitt stærsta framleiðslueldhús á Íslandi og þar eru framleiddar veitingar sem boðið er upp á í flugi Icelandair. Newrest tekur við rekstri eldhússins 1. febrúar næstkomandi en samningurinn er til tólf ára.
„Við erum spennt fyrir samstarfinu við Newrest sem er með mikla sérþekkingu á rekstri flugeldhúsa. Þannig getum við aukið gæði og skilvirkni á meðan við einbeitum okkur að því sem við erum best í, að reka flugfélag,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í fréttatilkynningu.
Segir Bogi Icelandair leggja mikla áherslu á að sem minnstar breytingar verði á starfsmannahópnum, enda búi starfsfólk eldhússins á Keflavíkurflugvelli yfir gríðarlega mikilli reynslu og þekkingu sem muni nýtast nýjum rekstraraðila.