Landsbankinn gerðist brotlegur við lög er varða flokkun viðskiptavina við framkvæmd bankans í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022. Bankinn verður þó ekki beittur viðurlögum.
Þetta kemur fram í niðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabankans (FME).
Landsbankinn var einn af söluráðgjöfum í lokaða útboðinu.
Metur FME það svo að Landsbankinn hafi ekki metið verðgildi fjármálagerninga tveggja viðskiptavina með fullnægjandi hætti, en sóttu þeir um að teljast fagfjárfestar hjá bankanum. Segir FME að þar með hafi bankinn brotið gegn 1. mgr. 54. gr. mffl., sem fjallar um flokkun viðskiptavina.
Braut bankinn jafnframt á sömu lögum „með því að móttaka og skrá tilboð fjögurra viðskiptavina sem voru við móttöku og skráningu tilboðanna flokkaðir sem almennir fjárfestar og með því að staðfesta flokkun tveggja þeirra sem fagfjárfesta áður en skriflegar umsóknir um slíka flokkun bárust bankanum, en viðskiptavinirnir voru flokkaðir síðar sem fagfjárfestar,“ að er kemur fram í niðurstöðu FME.
Segir í niðurstöðunni að ekki hafi verið talið tilefni til að beita viðurlögum og segir að þar hafi verið horft til eðlis og umfangs brotanna.
„Landsbankinn hefur þegar gert úrbætur á þeim atriðum sem niðurstaða fjármálaeftirlitsins tekur til,“ segir að lokum í niðurstöðunni.