Hægja muni á hagkerfinu og óvissan sé mikil

Efnahagsárið 2023 einkenndist af mikilli verðbólgu, háu vaxtastigi, hægari hagvexti og kröftugri einkaneyslu fyrri hluta árs en síðan dró úr henni þegar leið á árið.

Í byrjun árs mældist verðbólgan 9,9 prósent og rauf tveggja stafa múrinn í febrúar þegar hún mældist 10,2 prósent. Verðbólgan mældist lægst 7,6% í júlí, fór síðan aðeins upp á ný en nýjar verðbólgutölur sem birtar voru í síðustu viku sýna að verðbólgan er komin niður í 7,7%. Þó ber að hafa í huga að mikil óvissa er fram undan í tengslum við kjarasamningana.

Í byrjun árs voru stýrivextir 6% en eru nú í 9,25% og telja greiningaraðilar líklegt að þeir hafi náð hámarki. Í síðustu tveimur vaxtaákvörðunum ákvað Seðlabankinn að halda vöxtum óbreyttum.

Hagvöxtur mældist kraftmikill í byrjun árs og var hann að mestu leyti keyrður áfram af ferðaþjónustunni og kröftugri einkaneyslu. Nýjustu tölur sýna að hægt hefur á einkaneyslu og þó að tölur yfir hagvöxt á árinu hafi ekki verið birtar þegar þetta er ritað þá búast greiningaraðilar við að hann verði í kringum 3%.

Erfiðlega hefur gengið að ná verðbólguvæntingum niður en í byrjun árs var verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til næstu tveggja ára um 5%, toppaði í kringum 7% á fyrri hluta árs og enda árið í tæplega 6%. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma, þ.e. til fimm ára, til tíu ára og til fimm ára eftir fimm ár endaði árið á mjög svipuðum stað og það var í byrjun árs.

Greinendur sem ViðskiptaMogginn ræddi við eru á einu máli um að verðbólgan á árinu hafi reynst mun þrálátari en þeir gerðu ráð fyrir.

Aðlögunin verið hraðari

Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir að verðbólguþróunin hafi komið sér á óvart.

„Það hefur verið merkilegt hvað einkaneyslan hefur verið sterk framan af miðað við hversu háir stýrivextir hafa verið, þó svo að þróunin sé að snúast við núna. Það er meðal annars það sem hefur gert verðbólguna erfiða viðureignar,“ segir Kári.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að aðlögunin í hagkerfinu hafi verið heldur hraðari en gert var ráð fyrir í ársbyrjun. Hagvöxtur ætli að reynast nokkru minni en spáð var þrátt fyrir að útflutningurinn vaxi í takt við væntingar. Viðsnúningurinn í einkaneyslunni hafi verið öllu skarpari og fjárfesting heldur minni en vænt var, ekki síst í íbúðarhúsnæði.

„Þótt hagvöxturinn hafi reynst heldur minni og krónan aðeins sterkari en við spáðum í ársbyrjun hefur verðbólga þó reynst öllu þrálátari. Þar vegur þyngst að laun hafa hækkað nokkru meira en við væntum og verðbólga erlendis var meiri framan af ári. Það hefur svo leitt til meiri hækkunar stýrivaxta en við bjuggumst við í byrjun þessa árs,“ segir Jón Bjarki.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, segir að stóra myndin í hagkerfinu sé í takt við spár Landsbankans í ársbyrjun.

„Hagkerfið hefur kólnað eftir því sem á árið hefur liðið, útflutningur að sama skapi tekið við sem meginaflvaki vaxtar en verðbólgan reynst þrálát og vaxtastigið hækkað umtalsvert á árinu. Árið er ekki alveg búið, og mælingar fyrir hagvöxt á fjórða ársfjórðungi liggja ekki fyrir, en það er gaman að fara yfir það helsta sem komið er á árinu,“ segir Hjalti.

Verðbólgan muni hjaðna

Óhætt er að segja að mikil óvissa sé uppi um þessar mundir. Kjaraviðræður eru fram undan og óvíst er um áhrif jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Greinendur sem ViðskiptaMogginn ræddi við eru á einu máli um að verðbólgan muni hjaðna á næsta ári en benda þó á kjarasamningana sem óvissuþátt. Þeir eru jafnframt sammála um að hægja muni á hagvexti en það verði þó ekki samdráttur.

Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK