„Vonandi verður hægt að slaka á vöxtum fljótlega“

Ásgeir vonast til þess að þjóðarsátt á vinnumarkaði skapi kjölfestu …
Ásgeir vonast til þess að þjóðarsátt á vinnumarkaði skapi kjölfestu fyrir lækkun verðbólgu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kveðst jákvæður yfir fréttum þessa dagana þess efnis að ákveðin samstaða virðist vera að myndast á vinnumarkaðnum í kjaraviðræðum.

Vonast hann til þess að þjóðarsátt á vinnumarkaði skapi kjölfestu fyrir lækkun verðbólgu þannig hægt verði að lækka vexti fljótlega.

Nýtt bandalag stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins funduðu á fimmtudag og gáfu í kjölfarið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem aðilar vinnumarkaðarins kveðast sammála um að meginverkefnið verði að ná niður verðbólgu og háu vaxtastigi.

Kjarabætur koma ekki bara í gegnum nafnlaunahækkanir

Ásgeir hefur lengi talað fyrir því að fleiri aðilar en Seðlabankinn komi að borðinu í baráttunni við verðbólguna þrálátu. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti í þeirri viðleitni að kveða niður verðbólguna og standa þeir nú í 9,25%.

„Allt það sem ég heyri í fjölmiðlum, það sem aðilar hafa látið frá sér fara, finnst mér mjög jákvætt. Það er verið að minnast á rétta hluti, sem skipta máli fyrir verðstöðuleika.

Kjarabætur fólks koma ekki bara í gegnum nafnlaunahækkanir heldur með því að horfa á heildarmyndina. Kaupmáttur getur aðeins vaxið í smáum en þéttum skrefum, á grundvelli stöðugleika og vaxandi framleiðni – verðmætasköpun,“ segir Ásgeir.

Samstaða eykur líkur á mjúkri lendingu

Hann segir að sagan sýni að sátt á vinnumarkaði sé lykillinn að verðstöðuleika og segir það eiga við um þjóðarsáttina á sínum tíma sem var gerð árið 1990 sem og um lífskjarasamningana árið 2019 sem „voru ágætir um margt“.

„Núna er búið að hækka vexti mjög mikið til þess að hemja þenslu og verðbólgu. Árangur þessara aðgerða er nú að skila sér. Á seinni hluta ársins hefur dregið úr fjárfestingu og einkaneyslu ásamt því sem sparnaður hefur vaxið. Þetta er allt á réttri leið. Við erum að sjá efnahagslífið komast í mun betra jafnvægi,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Ég er mjög ánægður með það sem ég hef heyrt í fjölmiðlum um að vinnumarkaðsfélögin ætli að standa saman að þessu. Það gerir það líklegra að við náum mjúkri lendingu. Það er að segja að við náum jafnvægi í kerfinu án þess að Seðlabankinn þurfi að bremsa af efnahagslífið of hart niður með peningalegu aðhaldi. Vonandi verður hægt að slaka á vöxtum fljótlega, en það fer að vísu eftir verðbólgutölunum náttúrulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK