Hægt að nýta núverandi virkjanir betur

Eldur Ólafsson er forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals.
Eldur Ólafsson er forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, segir mögulegt að bæta 1000 megavöttum við orkubúskap landsins á næstu tíu árum að mestu án þess að fara inn á ný svæði. 200-300 megavött megi fá með því að bæta dreifinet raforku, 300 megavött úr litlum vatnsaflsvirkjunum og lághitavirkjunum og um 300 megavött með því að auka aflið í núverandi háhitavirkjunum.

Þetta kem­ur fram í ít­ar­legu viðtali í hlaðvarpsþætt­in­um Þjóðmál­um þar sem Gísli Freyr Val­dórs­son ræðir við Eld og Þórð Páls­son, for­stöðumann fjár­fest­inga hjá Sjóvá.

Hann myndi vilja sjá stjórnvöld einblína á þessa þætti, það er hvað þurfi að gera til skamms tíma til þess að vera með um 100 megavött á ári í kerfinu að jafnaði næstu ár, samhliða því að ná utan um langtímaáætlanir er varða virkjunarkosti.

„Þúsund megavött knýja þá ný fyrirtæki, ný heimili, rafmagnsbílana, allar tengingar við bræðslur og ef menn ætla sér að komast í þann draum að byrja að búa til einhvers konar metanól og allt þetta sem við viljum gera til að komast frá olíu og gasi yfir í endurnýjanlega orkugjafa,“ segir Eldur í þættinum.

Fjármagnað með tekjuflæði Landsvirkjunar

Hann bendir á að þetta væri hægt að gera nánast eingöngu með tekjuflæði Landsvirkjunar.

„Við þurfum ekki einu sinni að taka lán fyrir því, sem er svo frábær staða,“ segir Eldur. Áður var það svo að til að fjármagna virkjanir þurfti langtímasamning við stóriðju til.

„Þú þarft að hafa endanotanda sem er tilbúinn til að kaupa af þér orkuna í nægilega langan tíma svo þú getir fjármagnað virkjunina, þannig segjum að það séu 25 ár eða 30 ár, eða hvað það er. Hann er tilbúinn til þess ef hann fær orkuna á mjög lágu verði, hann þarf að flytja allt hérna inn og svo framvegis. En menn voru svolítið sniðugir af því að þeir byggðu upp þessar virkjanir og kerfin, og byggðu svo aukaafl fyrir okkur hin.“

Með tekjuflæði Landsvirkjunar sé hægt að sækja orku fyrir almennan markað án þess að hafa langtímasamning.

„Þannig að núna ef við erum að horfa á orkuskipti og við viljum fara í orkuskipti, þá getum við í raun byggt, segjum 100-200 megavött [á ári] og jafnvel meira […] bara út frá tekjuflæði Landsvirkjunar og það er svolítið mikilvægt, því ef þú ætlar að fara að byggja ofna í almennan markað, bræðslur, bíla, allt svona, þá ertu ekkert með langtímasamning.“

Þjóðmál á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK