Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, er gagnrýninn á skýrslu sem Samkeppniseftirlitið (SKE) birti í síðustu viku um reiknaðan ábata vegna íhlutunar eftirlitsins. Þar telur eftirlitið að þjóðarbúið hafi hagnast um 10-17 milljarða króna frá 2013 til 2022 vegna íhlutunarinnar.
Ragnar og aðrir viðmælendur ViðskiptaMoggans efast um útreikninga SKE, telja þá víðs fjarri raunveruleikanum og að eftirlitið gefi sér forsendur sem standist ekki skoðun.
Að sögn Ragnars er mat SKE á þjóðhagslegum áhrifum af verðlagseftirlitinu beinlínis hagfræðilega rangt.
„Það sem reynt er að meta er ávinningur kaupenda af þessum ímynduðu verðlækkunum en ekki tekið á móti tap seljenda af því að þurfa að taka á sig þessa verðlækkun. Þannig að þjóðhagslegur ávinningur af einhverjum svona verðlækkunum er kannski ef miðað er við að magnið breytist ekki neitt, og er kannski bara núll.
Með öðrum orðum er verið að millifæra frá framleiðendum til neytenda. Að þessu leyti er rangt að bera þetta mat saman við þjóðarframleiðsluna, sem er mælikvarðinn á þjóðhagslegan ávinning yfir árið,“ segir Ragnar.
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.