Gera má ráð fyrir verulegum samdrætti í byggingu nýrra íbúða á næstu misserum. Þetta sýnir niðurstaða könnunar sem Samtök iðnaðarins (SI) hafa látið framkvæma meðal stjórnenda verktakafyrirtækja í íbúðauppbyggingu.
Niðurstaða könnunarinnar verður birt á vef SI í dag, en Morgunblaðið hefur hana undir höndum.
Samkvæmt henni má vera ljóst að háir vextir og skortur á lóðaframboði eru þeir þættir sem hafa mest áhrif á fyrrnefndan samdrátt. Um 88% stjórnenda segja að hækkandi fjármögnunarkostnaður muni hafa neikvæð áhrif á uppbyggingaráform þeirra og leiða til samdráttar.
Þá segir tæplega helmingur þátttakenda í könnuninni að dregið hafi úr fjármögnunarmöguleikum þeirra fyrirtækja til byggingar íbúðarhúsnæðis á síðastliðnum sex mánuðum.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI segir í samtali við Morgunblaðið mikilvægt að auka lóðaframboð, sérstaklega í Reykjavík.
„Hér blasir að einhverju leyti við hagfræðikenningin um harm heildarinnar. Sveitarfélögin hafa hvert um sig hámarkað sinn hag við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis undanfarin ár en það leiðir til þess að sárlega vantar íbúðir til að mæta þörfum landsmanna og svo mun verða áfram næstu ár.“
Það er óhætt að segja að það sé þungt hljóð í stjórnendum verktakafyrirtækjanna því samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar má búast við verulegum samdrætti í byggingu nýrra íbúða á næstu misserum
Þannig reikna þeir með að hefja byggingu um 700 íbúða á næstu tólf mánuðum á meðan tæplega eitt þúsund íbúðir hafa verið í byggingu á síðustu tólf mánuðum, sem er tæplega 30% samdráttur.
Í sambærilegri könnun sem gerð var í mars á síðasta ári bjuggust stjórnendur við um 65% samdrætti, sem raungerðist ef miðað er við talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem framkvæmd var sl. haust.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.