Þurfa ekki að greiða stjórnvaldssektina strax

Samskip þarf ekki að greiða stjórnvaldssekt samkeppniseftirlitsins á meðan málið …
Samskip þarf ekki að greiða stjórnvaldssekt samkeppniseftirlitsins á meðan málið er til meðferðar fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Ljósmynd/Samskip

Samskip þarf ekki að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 4,2 milljarða króna á meðan málið er til meðferðar fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Litið var til þess að fjárhæð sektarinnar er umtalsvert hærri en áður hefur verið ákvarðað í samkeppnisréttarmálum hér á landi. 

Samkeppniseftirlitið lauk rannsókn á brotum Samskipta í lok ágúst á síðasta ári. Var það niðurstaða eftirlitsins að Samskip hafi með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með langvarandi ólögmætu samráði við Eimskip. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Samskip gert að koma í veg fyrir frekari brot 

Þá var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Samskip hafi við rannsókn málsins brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu. Samanlagðar stjórnvaldsektir vegna framangreindra brota nema 4,2 milljörðum króna.

Jafnframt var lagt fyrir Samskip að grípa til tiltekinna aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni.

Greiðslan myndi valda fjárhagslegum erfiðleikum

Samskip kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála um mánuði síðar, eða þann 27. september, og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Krafðist Samskip þess jafnframt að réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir áfrýjunarnefndinni. 

Til stuðnings þess að fresta réttaráhrifum héldu Samskip því meðal annars fram að greiðsla sektarinnar myndi valda fyrirtækinu fjárhagslegum erfiðleikum, að málsmeðferðin muni taka langan tíma hjá áfrýjunarnefndinni, að aðgerðir sem fyrirtækinu bæri að grípa til í því skyni koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni væru til þess fallnar að valda því tjóni og að yfirgnæfandi líkur væru á því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins yrði breytt eða hún felld úr gildi.

Málið á sér ekki hliðstæðu hér á landi 

Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar frá því í dag segir að réttaráhrifum stjórnvaldssektarinnar sé frestað vegna langs málsmeðferðartíma fyrir nefndinni. Er vísað til þess að málið sé mjög umfangsmikið og eigi sér hvað það varðar vart hliðstæðu í samkeppnisrétti hér á landi. 

Nefndin lítur jafnframt til þess að fjárhæð sektarinnar er umtalsvert hærri en áður hefur verið ákvarðað í samkeppnisréttarmálum hér á landi og því viðbúið að sektin kunni að hafa áhrif á stöðu áfrýjenda á meðan málið er til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni. 

Í ljósi þeirra staðreynda sé einsýnt að meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefndinni muni dragast og sé viðbúið að talsverður tími muni líða þar til niðurstaða í málinu muni liggja fyrir hjá nefndinni. Þannig sé ljóst að ekki muni takast að ljúka meðferð málsins fyrir nefndinni innan þeirra tímamarka sem lög kveða á um, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Mega enn ekki eiga í viðskiptalegu samstarfið við Eimskip

Með hliðsjón af framangreindu taldi áfrýjunarnefndin að fyrir hendi væru ástæður sem væru á margan hátt sérstakar og óvenjulegar. Þannig væri hægt að réttlæta þá ákvörðun að fresta réttaráhrifum hvað varðar stjórnvaldssektina á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. 

Áfrýjunarnefndin hafnar því hinsvegar að fresta réttaráhrifum þeirra fyrirmæla sem Samkeppniseftirlitið beindi til Samskipa, svo sem um að fyrirtækið hætti öllu viðskiptalegu samstarfi við Eimskip og félög á vegum þess, nema sýnt væri fram á að samstarfið væri þess eðlis að ekki væri hætta á röskun á samkeppni.

Segir í úrskurðinum að það sé mat nefndarinnar að fyrirmælin séu hvorki óvenjuleg né sérstaklega íþyngjandi í garð fyrirtækisins þannig að fyrir hendi væru aðstæður sem réttlættu að fresta réttaráhrifum þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK