Íslendingar eyddu 3,07 milljörðum króna í erlenda netverslun í nóvember samkvæmt nýjustu mælingum, sem sýna 25,9% aukningu á milli ára.
Erlend netverslun hefur því aldrei mælst meiri síðan Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) hóf að safna saman gögnum um erlenda netverslun Íslendinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rannsóknarsetrinu.
Netverslun innanlands í nóvember 2023 samkvæmt kortaveltugögnum RSV nemur tæpum 18 milljörðum króna.
Þá vekur athygli að flokkurinn bækur, blöð og hljómplötur hefur færst í aukana og fólk er að sjá hag sinn í því að kaupa bækur í erlendri netverslun, en flokkurinn hækkar um 45,7% á milli ára og nam 104 milljónum króna í nóvember.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur haldið úti netverslunarvísi RSV frá janúar 2022 með því að fá gögn um erlenda netverslun Íslendinga frá Tollinum.