Marel gengur til frekari viðræðna um yfirtöku

Bandaríska félagið JBT hefur hækkað yfirtökuboð sitt í annað sinn …
Bandaríska félagið JBT hefur hækkað yfirtökuboð sitt í annað sinn og stendur það nú í 3,6 evrum á hlut. mbl.is/Hjörtur

Stjórn Marel hefur ákveðið að ganga til frekari viðræðna við bandaríska félagið John Bean Technologies Corporati­on (JBT) um mögulegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels eftir að JBT hækkaði í annað skiptið mögulegt yfirtökutilboð sitt.

JBT setti fyrst fram óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt yfirtökutilboð í allt hlutafé félagsins í nóvember og uppfærði svo tilboðið í desember. Upphaflega buðu JBT 3,15 evrur á hlut, en í desember var tilboðið hækkað í 3,4 evrur. Í uppfærðri óskuldbindandi viljayfirlýsingu sem greint er frá í morgun er tilboðið nú komið upp í 3,6 evrur á hlut (538 kr. á hlut miðað við gengi 18. janúar), en það er 14,3% hærra verð en JBT bauð upphaflega og 5,9% hærra boð en í desember.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar nú í morgun segir að JBT hyggist leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í Marel nú á fyrsta ársfjórðungi með samruna félaganna að markmiði.

„Stjórn Marel hefur metið framangreindar viljayfirlýsingar af kostgæfni. Marel hefur átt í uppbyggilegu samtali við JBT og hefur stjórn félagins í kjölfarið lagt mat á uppfærða viljayfirlýsingu með tilliti til verðs og helstu skilmála. Stjórn Marel telur ávinning geta falist í sameinuðu félagi og hefur því ákveðið að ganga til frekari viðræðna við JBT og þar með opna á formlegt samtal á milli félaganna. Í framhaldinu er stefnt að gagnkvæmri afmarkaðri áreiðanleikakönnun,“ segir í tilkynningunni.

Stjórnin styður að fýsileiki samruna sé kannaður

Viljayfirlýsingu JBT fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris invest hf, stærsta eiganda í Marel með 24,7% hlutafjár, um samþykki sitt verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna.

„Í framhaldi af virku samtali við JBT síðustu vikur hefur Marel móttekið uppfærða viljayfirlýsingu frá JBT um mögulegan samruna félaganna. Stjórn félagsins hefur sterka trú á Marel sem sjálfstæðu félagi en það er niðurstaða okkar eftir að hafa metið yfirlýsingu JBT af kostgæfni, að góð rök séu fyrir sameiningu félaganna fyrir hluthafa Marel og aðra hagaðila. Skilmálar yfirlýsingarinnar eru álitlegir og fela í sér tækifæri fyrir hluthafa Marel að taka þátt í frekari virðissköpun til framtíðar. Af því leiðir að stjórn Marel styður að farið verði í formlegar viðræður við JBT og fýsileiki samruna kannaður á grundvelli þessara skilmála,“ er haft eftir Arnari Þór Mássyni, stjórnarformanni Marel, í tilkynningunni.

Marel í nýju nafni og starfsemi áfram á Íslandi

Í skilmálum og fyrirvörum viljayfirlýsingarinnar kemur meðal annars fram að greiða fyrir hluti í Marel geti verið með reiðufé, með hlutum í JBT, eða með blöndu af reiðufé og hlutum í JBT. Gert er ráð fyrir að hluthafar í Marel muni eignast um 38% hlutafjár hins sameinaða félags, en það er skráð á markað í New York í Bandaríkjunum.

Þá segir að komi að sameiningu muni félagið bera nafnið JBT Marel corporationn og að það verði bæði skráð í Bandaríkjunum og í íslensku Kauphöllinni. Sameinað félag muni starfrækja evrópskar höfuðstöðvar og tækniþróunarsetur í Garðabæ, en höfuðstöðvar félagsins verða í Chicago í Bandaríkjunum.

Hjá Marel starfa um 8.000 manns í yfir 30 löndum. Tekjur Marel námu um 1,7 milljarði evra árið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK