Arðsemi eigin fjár íslenska bankakerfisins er sú lægsta á Norðurlöndum og sú sjötta lægsta á EES-svæðinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Evrópska bankaeftirlitinu (EBA). Meðalarðsemi bankakerfa á EES-svæðinu var á þriðja fjórðungi síðasta árs 15,8 prósent en meðalarðsemi allra banka í Evrópu var 10,9 prósent. Meðalarðsemi bankakerfa var hæst í Ungverjalandi, eða 28,4 prósent, 11,8 prósent á Íslandi en lægst í Þýskalandi, 7,0 prósent.
Meiri en í Evrópu
Þá taka tölurnar ekki tillit til þess að hér eru almennt vextir, verðbólga og hagvöxtur meiri en víðast hvar í Evrópu, sér í lagi annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er áætlað að hagvöxtur innan ESB hafi verið 0,6 prósent á árinu 2023 á meðan vænt er að hagvöxtur hér á landi hafi verið 3,7 prósent, sem er meira en í öllum ríkjum ESB fyrir utan Möltu.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að tölurnar sýni að umræða um óeðlilega háa arðsemi og ofurhagnað eigi ekki við rök að styðjast. Arðsemi hér á landi hafi verið undir meðaltali annarra Evrópulanda frá árinu 2018.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.