Starfsmenn skattsins hafa fengið um 260 milljónir króna í bónusgreiðslur á liðnum fjórum árum. Skatturinn hefur ekki svarað því hversu margir starfsmenn hafi fengið greiðslur.
„Skattinum er almennt sett það markmið að ná sem mestum árangri í sínum störfum, þar með talið í baráttunni við skattundanskot bæði af hálfu löggjafans og ráðuneytisins og það komi víða fram, m.a. í fjármálastefnu ríksins og fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028,“ segir í skriflegu svari skattsins til Morgunblaðsins þar sem spurt er hvort stofnuninni hafi verið sett eða sett sjálfri sér markmið um fjárhæðir endurálagningar.
Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í síðustu viku og í ViðskiptaMogganum í vikunni hefur skatturinn sett upp bónuskerfi sem tryggir starfsmönnum viðbótarlaun.
Morgunblaðið óskaði eftir svörum skattsins um það hversu margir starfsmenn hefðu unnið sér inn viðbótarlaun og um hversu háar fjárhæðir væri að ræða, hvort hann hefði sett sér markmið um fjárhæð endurálagningar og hvort þau markmið hefðu áhrif á bónusgreiðslur.
Að sögn viðmælenda blaðsins er innbyggt hvatakerfi hjá eftirlitsstofnun eins og skattinum til þess að ná fjármunum í ríkiskassann – og í vasa starfsmanna – ekki til þess fallið að mál leiði til réttra skattskila í samræmi við lög. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að fjármálaráðherra hefði óskað eftir frekari upplýsingum frá skattinum vegna málsins.
Ítarlegar er fjallað um málið á síðu 22 í Morgunblaðinu í dag.