Steinunn Hlíf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri upplifunar viðskiptavina hjá Arion banka, hefur komist að samkomulagi við bankann um starfslok eftir að hafa gegnt starfinu og átt sæti í framkvæmdastjórn bankans frá árinu 2021.
Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum verða teknar ákvarðanir um næstu skref með stöðuna fljótlega.
„Steinunn Hlíf hefur leitt mikilvægar breytingar þegar kemur að þjónustu bankans og upplifun viðskiptavina. Við höfum byggt sterkan grunn sem mun gegna lykilhlutverki í áframhaldandi þróun þjónustu okkar og upplifun viðskiptavina. Ég þakka Steinunni einstaklega gott samstarf og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka.