Landsbankinn spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku á meðan óvissa ríkir um kjaraviðræður og hamfarir í Grindavík.
Peningastefnunefndin mun funda á miðvikudag og kynna vaxtaákvörðun. Á síðasta fundi nefndarinnar í nóvember var ákveðið að halda vöxtum óbreyttum með vísan í óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesi.
Landsbankinn telur ólíklegt að afstaða nefndarinnar muni breytast, þá sérstaklega vegna erfiðleika Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga undir regnhlíf Alþýðusambands Íslands að komast að samkomulagi vegna kjaraviðræða.
Óvissa vegna kjaraviðræða eða náttúruhamfara geta ýtt undi verðbólguvæntingar og þar með verðbólgu. Í fyrra hækkuðu laun um 9,8% og er líklegt að nefndin muni vilja sjá meiri ró á vinnumarkaðinum áður en gripið er til aðgerða.
Ekki er vitað hvernig ríkisútgjöld vegna hamfara í Grindavík verða útfærð og fjármögnuð, en útgjaldaaukningin mun nema allt að 70-100 milljörðum sem leitar beint inn á húsnæðismarkað.
Verðhækkanir á íbúðamarkaði halda áfram að sögn bankans sökum fjölgunar hlutdeildalána og væntinga um íbúðaskort. Eftirspurn eftir íbúðum eykst í ljósi þess að Grindvíkinga vantar ný heimili, sem stjórnvöld munu veita fjármagn fyrir.
Þá segir að þörf sé á framboðsmiðuðum aðgerðum til að taka í tauminn á verðhækkunum á íbúðamarkaði, en nú þegar hafa takmarkanir á skammtímaleigu til ferðamanna verið til umræðu.
Áframhaldandi eftirspurn mun jafnframt auka spennu á vinnumarkaði með tilheyrandi þenslu og verðbólguþrýstingi.
Verðbólga hefur lækkað frá 7,9% niður í 6,7% frá síðasta fundi nefndarinnar í nóvember. Landsbankinn spáir enn meiri hjöðnun á þessu ári og að verðbólga verði komin niður í 5,1% í apríl.
Þó lækkunin sé meiri en spáð var er enn langt í land að ná verðbólgunni undir 4-5%, sem er þó langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.