Vextir lækki í fyrsta lagi um mitt árið

Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur Landsbankans. mbl.is/Hallur Már

Hagfræðingur hjá Landsbankanum telur ólíklegt að stýrivextir lækki á ný fyrr en um mitt árið og býst við því að þeir haldist óbreyttir í 9,25% þangað til.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag spáir Landsbankinn því að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum þegar peningastefnunefnd kemur saman í næstu viku.

Vaxtaákvörðun verður svo aftur tekin í mars og síðan í maí. Eftir það verður ekki tekin önnur ákvörðun fyrr en í ágúst.

„Mér finnst erfitt að sjá fyrir mér vaxtalækkun fyrr en í fyrsta lagi um mitt þetta ár,“ segir Hildur Mar­grét Jó­hanns­dótt­ir, hag­fræðing­ur hjá Landsbankanum, í samtali við mbl.is.

Of snemmt að hrósa sigri 

„Við teljum óvarlegt að hrósa sigri strax. Verðbólgan er enn langt yfir markmiði og við spáum því að hún komist nálægt 5% í lok apríl,“ segir Hildur. Tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 6,7% samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands og dróst því saman um heilt prósentustig á milli mánaða.

„Ég tel ólíklegt að peningastefnunefnd lækki vexti á meðan þetta er staðan. Þau munu vilja sjá aukinn slaka færast yfir þjóðarbúskapinn áður en þau byrja vaxtalækkunarferli,“ bætir Hildur við.

Áhrifin af vaxtahækkunum Seðlabankans eru ekki endilega öll komin fram, að sögn Hildar. Hagfræðingurinn telur það mjög líklegt að það dragi enn frekar úr umsvifum í hagkerfinu á næstu mánuðum og þó verðbólgan sé enn yfir markmiði er ekki víst að peningastefnunefnd haldi áfram að hækki vexti.

„Að viðhalda þessu vaxtastigi á meðan verðbólgan er að hjaðna jafngildir því í raun að herða taumhaldið,“ segir Hildur.

Gangi spáin eftir yrðir þetta annað skiptið í röð sem …
Gangi spáin eftir yrðir þetta annað skiptið í röð sem stýrivextir haldast óbreyttir. Mynd úr safni: Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri. mbl.is/Eyþór

Aðgerðir vegna Grindavíkur líklegri en ekki til að hækka húsnæðisverð

Áhrif jarðhræringarnar í Grindavík, og væntanlegar aðgerðir stjórnvalda þeirra vegna, á verðbólgu og vaxtastig eru enn óljós, segir Hildur.

Enn er ekki skýrt hvernig stjórnvöld hyggjast útfæra þær aðgerðir.

„Það má segja að það sé líklegt að húsnæðisverð muni hækka meira en ella. Það verði aukinn þrýstingur á húsnæðisverð af því það vantar tólfhundruð heimili sem áður hýstu Grindvíkinga. Stjórnvöld hafa gefið það út að þau munu aðstoða Grindvíkinga,“ segir Hildur.

Peningar vegna Grindavíkur rati inn á húsnæðismarkaðinn

„Skaðinn er skeður og þetta er náttúrulega enginn smá skaði fyrir Grindvíkinga. Stjórnvöld hafa samt tilkynnt að Grindvíkingar munu ekki þurfa að bera allan þennan fjárhagslega skaða, heldur verður það gert sameiginlega,“ segir Hildur.

Hún bendir þá einnig á að enn sé óljóst hvernig þessi væntanlegu útgjöld vegna Grindavíkur verði fjármögnuð. Efnahagsáhrif aðgerðanna séu háð því hvort stjórnvöld hyggist t.d. taka lán – eins og í kórónuveirufaraldrinum –, auka tekjur ríkissjóðs eða hagræða á einn eða annan hátt.

Eitt sé þó ljóst: „Þessir peningar munu að stórum hluta leita inn á húsnæðismarkað og valda aukinni þenslu þar.“

Hún bætir við að ef aukin eftirspurn eftir íbúðum leiði til aukinnar íbúðauppbyggingar má búast við meiri spennu á vinnumarkaði og þenslu í hagkerfinu almennt.

Eftirspurn á húsnæðismarkaði stórjókst þegar um 1.200 Grindvíkingar þurftu að …
Eftirspurn á húsnæðismarkaði stórjókst þegar um 1.200 Grindvíkingar þurftu að finna sér nýjan stað til þess að búa á. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvissa um launaþróun „vondar fréttir fyrir verðbólguhorfur“

Nú standa yfir spennuþrungnar kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttafé­laga. Samningsaðilar segjast hafa það sameiginlega markmið að lækka verðbólgu og vexti í landinu.

Aðspurð hvaða áhrif þessar viðræður gætu haft á verðbólgu svarar Hildur: 

„Öll óvissa er vond. Það eru vondar fréttir fyrir verðbólguhorfur að það sé mikil óvissa um hver launaþróunin verður. Og um leið og það eru væntingar um mikil átök á vinnumarkaði getur það komið til með að auka verðbólguþrýsting í gegn um verðbólguvæntingar.“

Fundur SA og breiðfylkingar stéttarfélaga hjá ríkissáttasemjara í Karphúsinu.
Fundur SA og breiðfylkingar stéttarfélaga hjá ríkissáttasemjara í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhrif fólksfjölgunar gætu verið minni en við mátti búast

Eins og mbl.is greindi frá í morgun er lík­legt að eitt­hvað dragi úr fjölda skráðra íbúa hér á landi þegar Hag­stof­an birt­ir nýj­ar töl­ur um íbúa­fjölda, en byggt er á nýrri og ná­kvæm­ari aðferð en áður hef­ur verið stuðst við.

Ef íbúafjöldinn hefur verið ofmetinn, má búast við því að vöntunin á húsnæði á markaðinum sé ekki eins mikil og við er búist?

„Það getur haft einhver áhrif á það. Það er ýmislegt sem þarf kannski að skoða upp á nýtt ef það reynist rétt en það er kannski ekki tímabært að segja til um hverju það breytir. En við höfum alveg talað um það að aukning í einkaneyslu og landsframleiðslu allra síðustu ár hefur að mjög miklu leyti verið drifin áfram af fólksfjölgun. Ef fólksfjölgunin hefur verið eitthvað minni er gögnin hafa sagt okkur þá eru þau áhrif ekki alveg jafn sterk og við höfum haldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK