Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri flugfélagsins Play, segir mikinn mun vera á því þegar endurskoðendur geri fyrirvara við rekstrarhæfi fyrirtækja og þegar settar séu fram ábendingar eða athugasemdir í uppgjör.
Félagið sendi frá sér ársuppgjör í gær þar sem kom fram að rekstrartap síðasta árs hefði numið 21 milljón bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 2,9 milljörðum króna. Árið áður hafði rekstrartapið verið ríflega tvöfalt það, eða 44 milljónir dala.
Í reikningi félagsins setur endurskoðandi þess fram athugasemdir um að vísbendingar séu um að vafi sé um áframhaldandi rekstrarhæfi flugfélagsins (e. going concern). Vegna þessa ákvað Kauphöllin að athugunarmerkja hlutabréf Play, en félagið er skráð á First North-markaðinn.
Ólafur Þór segir í samtali við mbl.is að gríðarlega stór munur sé á því hvort sett sé inn ábendingamálsgrein í áritun endurskoðanda eða ef settur er inn fyrirvari.
„Í þessu tilfelli setja þeir inn ábendingamálsgrein sem er mjög mjúklega orðið með hliðsjón af viðfangsefninu. Það er himinn og haf þar á milli.“
Segir hann jafnframt að í athugasemdunum sé bent á skýrslu stjórnar í ársreikningnum um að framundan sé útgáfa á nýju hlutafé til að styrkja stöðu félagsins til skemmri og lengri tíma og fjármagna framtíðarvöxt.
„Endurskoðandinn gerir ekki fyrirvara við reikninginn að öðru leyti en því að hann vill benda lesandanum á þessar staðreyndir. Það er hins vegar stór munur hvort þú gerir fyrirvara við reikning út af rekstrarhæfi eða ef þú setur inn ábendingamálsgrein þar sem þú bendir á einhver önnur atriði í reikningnum sem annað hvort eru til þess fallin að rekstrarhæfi sé ógnað, eða hvort það er verið að grípa til aðgerða til að tryggja rekstrarhæfi og framtíðarhæfi félagsins,“ segir Ólafur Þór.
Ef um fyrirvara á rekstrarhæfi félagsins væri að ræða segir Ólafur Þór að uppsetning reikningsins væri allt önnur og vísar þar til þess hvernig flokkun eigna og skulda væri en sé í reikningnum nú. „Reikningurinn er gerður miðað við áframhaldandi rekstrarhæfi.“
Tap varð á rekstri Play upp á 17,6 milljónir dala á síðasta ársfjórðungi og laust fé um áramót nam um 21,6 milljónum dala. Spurður út í rekstrarhæfi félagsins á komandi misserum miðað við þessar tölur segir Ólafur Þór að félagið hafi nægt laust fé. Vísar hann til þess að fyrsti og annar ársfjórðungur ársins séu venjulega þeir mánuðir þar sem gefi mest jákvætt sjóðstreymi vegna kaupa farþega á miðum á þessum árstíma. Þessar tekjur eru þó jafnan ekki skráðar rekstrarlega í reikninga fyrr en á öðrum og þriðja ársfjórðungi og því nái staða handbærs fjár jafnan hámarki í lok annars ársfjórðungs.
Spurður hvort þetta setji einhver tímamörk á hlutfjáraukninguna sem stjórn hafi tilkynnt um bendir hann á að stjórnin hafi ætlað að klára fjármögnunina á fyrri hluta ársins sem sé innan fyrrnefnds tímabils.
Tekjur Play jukust rúmlega tvöfalt á síðasta ári frá árinu 2022, en þær námu 282 milljónum dala samanborið við 140 milljónir dala árið 2022. Rekstrartap ársins (EBIT) nam sem fyrr segir um 21 milljón dölum en hafði verið 44 milljónir dala árið áður. Þegar tekið er mið af fjármagnsgjöldum og sköttum var heildartap félagsins á árinu 35 milljónir dala, samanborið við 47,8 milljónir dala árið áður.
Tekjur félagsins árið 2023 voru 282 milljónir bandaríkjadollara, eða sem nemur um 40 milljörðum íslenskra króna, samanborið við tekjur upp á 140 milljónir bandaríkjadollara, 20 milljarðar íslenskra króna, árið 2022.
Félagið skilaði hagnaði á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, en það er jafnframt í fyrsta skipti sem hagnaður varð á einum ársfjórðungi. Er það jafnframt sá ársfjórðungur sem kemur best rekstrarlega út hjá flugfélögum.
Í tilkynningu vegna uppgjörs félagsins kemur fram að ytri aðstæður hafi komið niður á rekstrinum frá miðju síðasta ári. „En þar má nefna miklar sveiflur á olíuverði, kostnaðarauka vegna verðbólgu og átök í miðausturlöndum. Þá olli ónákvæmur fréttaflutningur á heimsvísu, um jarðhræringar á Reykjanesskaga í nóvember síðastliðnum, því að eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað dróst verulega saman og er niðurstaða ársins 2023 lituð af því.“
Tekið er fram að Play hafi síðan séð skýr merki þess að eftirspurnin hafi tekið við sér að nýju. „Metsöluvikur hafa átt sér stað nú í upphafi árs 2024 og lítur bókunarstaðan vel út fyrir árið,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að félagið hafi fallið frá áformum sem höfðu áður komið fram í viljayfirlýsingu um að taka tvær nýjar farþegaþotur inn í flotann árið 2025.
Félagið hafi áfram áhuga á að auka framboð sitt á komandi árum, en að þörf sé á öðruvísi gerð af farþegaþotum sem myndu falla betur að þörfum félagsins við næstu skref uppbyggingar. Þá segir jafnframt að framtíðarsýn félagsins sé að flotinn stækki í 18-20 þotur.