Íslandsbanki hagnaðist um 6,2 milljarða á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Í heild hagnaðist bankinn um 24,6 milljarða árið 2023.
Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá bankanum.
Hreinar vaxtatekjur námu 48,6 milljörðum króna á árinu sem er aukning um 12,7% frá fyrra ári. Hreinar þóknanatekjur námu 14,2 milljörðum samanborið við 14,1 milljarð króna árið 2022.
Þá kemur fram að innlán frá viðskiptavinum jukust milli ára um 7,7%, úr 790 milljörðum króna í lok árs 2022 í 851 milljarð króna í lok árs 2023.
Stjórnunarkostnaður á árinu 2023 nam 26,7 milljörðum króna, ef frá er talin 860 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi.
Samanborið við 2022 þegar stjórnunarkostnaðurinn var 23,6 milljarðar króna, þegar frá er talin stjórnvaldssekt að fjárhæð 300 milljónir króna, sem gjaldfærð var á fjórða ársfjórðungi 2022.
„Borið saman við árslokatölur 2022 jukust útlán um 3,1% á ársgrundvelli sem er hægari vöxtur en árið á undan og hefur hátt vaxtastig þar klárlega áhrif. Gæði lánasafnsins eru góð og sjáum við litla aukningu í vanskilum. Aukning í innlánum frá viðskiptavinum um tæp 8% á árinu styrkti enn frekar megin fjármögnunarstoð bankans,“ segir í m.a. tilkynningu frá bankanum.