Þær Hörn Valdimarsdóttir, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir og Vala Smáradóttir hafa gengið til liðs við Defend Iceland og mynda, ásamt stofnandanum Theódóri Ragnari Gíslasyni, stofnteymi Defend Iceland.
Fram kemur í tilkynningu að verkefnið Verjum Ísland, eða Defend Iceland, sé svokölluð villuveiðigátt þar sem öryggissérfræðingar úr mörgum áttum og með ólíkan bakgrunn leiði saman krafta sína í því skyni að koma í veg fyrir alvarleg innbrot í net-, tölvu- og hugbúnaðarkerfi fyrirtækja og stofnana.
Segir jafnframt að villuveiðigáttir séu þekkt leið til að virkja öryggissérfræðinga sem hermi aðferðir hakkara við leit að öryggisveikleikum. Þá sé markmið Defend Iceland að finna öryggisveikleika á undan tölvuglæpamönnum og sjá til þess að þeir verði lagfærðir áður en hægt sé að valda alvarlegum skaða.
Þá er tekið fram í tilkynningunni að Hörn Valdimarsdóttir sé rekstrarstjóri og hluti af stofnteymi Defend Iceland.
„Hún hefur starfað við mannauðsmál frá árinu 2019 og vann hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo Software áður en hún hóf störf sem mannauðsstjóri Syndis árið 2022. Hörn er með BSc gráðu í sálfræði og MSc gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.“
Segir einnig að Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir sé framkvæmdastjóri nýsköpunar, sölu og markaðsmála og hluti af stofnteymi Defend Iceland.
„Hún kemur til Defend Iceland frá Almannarómi – miðstöð máltækni, þar sem hún var framkvæmdastjóri. Áður starfaði hún meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík og forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Straumi fjárfestingarbanka. Jóhanna Vigdís er með MBA gráðu frá HR og AMP gráðu frá IESE Business School.“
Þá er Vala Smáradóttir framkvæmdastjóri vöru- og verkefnastýringar og hluti af stofnteymi Defend Iceland.
„Hún hefur síðustu ár unnið að verkefnum í stafrænum umbreytingum og nýsköpun á sviði sjálfbærni og vöru- og hugbúnaðarþróunar. Hún er með bakgrunn í verkefnastjórnun, hagnýtum markaðsfræðum og miðlun. Vala er með BA gráðu í ensku og MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun auk viðbótardiplóma í kennslufræðum.“
Defend Iceland var stofnað í fyrra og eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík meðal samstarfsaðila verkefnisins. Hefur það hlotið 2,6 milljóna evra styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem jafngildir um 400 milljónum króna.