„Það er merkilegt að á Íslandi sé enginn fyrirsjáanleiki í skattheimtu. Auðvitað vita allir að það á að borga tekju- og fjármagnstekjuskatt og það ber að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. En þegar kemur að ýmsum álitamálum, sem koma alltaf upp, sérstaklega í rekstri fyrirtækja, þá er ekki á vísan að róa hjá skattinum og hefur verið þannig um langa hríð,“ segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður í samtali við ViðskiptaMoggann í framhaldi af umfjöllun um bónusgreiðslur til starfsmanna skattsins.
„Það hefur verið reynt að fá einhverja forúrskurði hjá skattinum en vandamálið er að fyrirsjáanleiki skattkerfisins er lítill sem enginn nema ef það snertir hefðbundna skatta einstaklinga og fyrirtækja. Þegar kemur að fjárfestingum og ýmsu öðru sem getur verið flókið vandast málin þó heldur betur hjá skattinum. Þá vita aðilar ekkert í hvaða átt þeir eiga að fara,“ segir Sigurður.
Viðmælendur, sem kjósa að tjá sig ekki undir nafni, taka undir með Sigurði G. og segja að á undanförnum árum hafi skatturinn breytt þekktum skattframkvæmdum með nýjum lagatúlkunum og almennt taki stofnunin mjög árásargjarna stöðu, sem valdi meðal annars því að erlendir fjárfestar hugsi sig tvisvar um að fjárfesta hér á landi, þar sem bæði skattar og ekki síður framkvæmd skattheimtu vegur þungt í rekstri fyrirtækja.
Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum.