Fimm manns í tíu daga í Namibíu

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm starfsmenn frá embætti héraðssaksóknara dvöldu í tíu daga í Namibíu undir lok janúar til að framkvæma skýrslutökur af vitnum, eiga fundi með embættismönnum þar í landi og afla gagna. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara við spurningum Morgunblaðsins.

Blaðið greindi frá því þann 25. janúar sl. að fimm starfsmenn embættisins væru staddir í Windhoek, höfuðborg Namibíu, við rannsókn á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja. Rannsóknin hefur nú tekið rúm fjögur ár, en hún hófst undir lok árs 2019. Átta manns hafa réttarstöðu sakbornings í málinu.

Ólafur Þór vill í svörum sínum ekki veita upplýsingar um framkvæmd á skýrslutökum aðrar en þær að starfsmenn embættisins hafi tekið þátt í þeim. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans sáu íslenskir starfsmenn embættisins alfarið um skýrslutökur. Þá er ekki gefið upp hversu margir voru yfirheyrðir eða teknir í skýrslutöku.

Fyrrnefnd ferð byggði á grundvelli réttarbeiðni sem send var frá Íslandi til Namibíu í lok árs 2022.

Spurður um það hvað kalli á að fimm starfsmenn frá embættinu fari utan til að taka þátt í skýrslutökum segir Ólafur Þór að það sé metið af embættinu hverju sinni hversu margir fari og hverjir. Um sé að ræða umfangsmikið mál með aðkomu nokkurs fjölda starfsmanna embættisins og að miklu máli skipti að klára þennan þátt málsins með einni ferð til Namibíu. Hann segir að lengst af hafi fjórir rannsakendur unnið að rannsókn málsins auk aðkomu saksóknara og yfirlögregluþjóns en rannsakendum hafi fækkað um einn.

Þá segir Ólafur Þór að rannsóknin hér á landi sé vel á veg komin en ekki sé unnt að tímasetja lok hennar að svo stöddu. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans fóru engar skýrslutökur fram yfir sakborningum á síðasta ári. Spurður nánar um það segir Ólafur Þór að aðallega hafi verið unnið í gögnum á árinu og skýrslur teknar af tveimur vitnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK