Yfir 200 milljóna gjaldþrot Cyren

Gjaldþrot Cyren á Íslandi nam yfir 200 milljónum króna.
Gjaldþrot Cyren á Íslandi nam yfir 200 milljónum króna. mbl.is/Árni Sæberg

Gjaldþrot hugbúnaðarfyrirtækisins Cyren Iceland hf. nam yfir 200 milljónum króna, en félagið varð nokkuð óvænt í fyrra úrskurðað gjaldþrota. Samtals fengust rúmlega 12 milljónir greiddar upp í 238,6 milljóna kröfur.

„Þetta kom á óvart, fólk fékk borguð sín laun án vand­ræða tveim­ur dög­um áður. Það var búið að skipu­leggja verk­efni marga mánuði fram í tím­ann. Svo bara skell­ur þetta á eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Friðrik Skúla­son í sam­tali við Morg­un­blaðið í mars í fyrra, en hann hafði lengi starfað hjá fyr­ir­tæk­inu og seldi því upp­haf­lega veiru­leitar­for­ritið F-Prot fyr­ir tíu árum.

„Maður sér það þegar fyr­ir­tæki fer í upp­sagn­ir, á í vand­ræðum með að borga laun og þannig. Það er ekki það sem ger­ist núna. Starfs­fólkið veit ekki bet­ur en allt sé í fín­asta lagi. All­ir fengu laun­in sín borguð án vand­ræða. Svo bara púff. All­ir fá tölvu­póst um upp­sögn. Þetta er brútal. Það er orðið yfir þetta,“ sagði Friðrik jafnframt, en að hans mati var það röð rangra ákv­arðana sem stjórn­end­ur móður­fyr­ir­tæk­is­ins tóku, sem olli því að fyr­ir­tæk­inu var lokað.

Móðurfélag Cyren á Íslandi var ísraelska félagið Cyren, en það var sett í greiðslustöðvun á sama tíma. Fyrirtækið hannaði vírusvarnir fyrir fjölda stórfyrirtækja. Eftir gjaldþrot Cyren á Íslandi keyptu Opin kerfi, vírusvarnarhugbúnað fyrirtækisins og settu í félagið Varist ehf. Er félagið í eigu Opinna kerfa og fyrrum starfsmanna Cyren á Íslandi.

Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu kemur fram að skiptum á búinu hafi lokið 9. febrúar, en lýstar kröfur í búið námu sem fyrr segir 238,6 milljónum. Þar af voru búskröfur upp á 520 þúsund sem fengust að fullu greiddar, forgangskröfur upp á 225 milljónir, en 11,8 milljónir fengust greiddar upp í þær. Ekkert fékkst greitt upp í aðrar almennar og eftirstæðar kröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka