Gjaldþrot hugbúnaðarfyrirtækisins Cyren Iceland hf. nam yfir 200 milljónum króna, en félagið varð nokkuð óvænt í fyrra úrskurðað gjaldþrota. Samtals fengust rúmlega 12 milljónir greiddar upp í 238,6 milljóna kröfur.
„Þetta kom á óvart, fólk fékk borguð sín laun án vandræða tveimur dögum áður. Það var búið að skipuleggja verkefni marga mánuði fram í tímann. Svo bara skellur þetta á eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Friðrik Skúlason í samtali við Morgunblaðið í mars í fyrra, en hann hafði lengi starfað hjá fyrirtækinu og seldi því upphaflega veiruleitarforritið F-Prot fyrir tíu árum.
„Maður sér það þegar fyrirtæki fer í uppsagnir, á í vandræðum með að borga laun og þannig. Það er ekki það sem gerist núna. Starfsfólkið veit ekki betur en allt sé í fínasta lagi. Allir fengu launin sín borguð án vandræða. Svo bara púff. Allir fá tölvupóst um uppsögn. Þetta er brútal. Það er orðið yfir þetta,“ sagði Friðrik jafnframt, en að hans mati var það röð rangra ákvarðana sem stjórnendur móðurfyrirtækisins tóku, sem olli því að fyrirtækinu var lokað.
Móðurfélag Cyren á Íslandi var ísraelska félagið Cyren, en það var sett í greiðslustöðvun á sama tíma. Fyrirtækið hannaði vírusvarnir fyrir fjölda stórfyrirtækja. Eftir gjaldþrot Cyren á Íslandi keyptu Opin kerfi, vírusvarnarhugbúnað fyrirtækisins og settu í félagið Varist ehf. Er félagið í eigu Opinna kerfa og fyrrum starfsmanna Cyren á Íslandi.
Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu kemur fram að skiptum á búinu hafi lokið 9. febrúar, en lýstar kröfur í búið námu sem fyrr segir 238,6 milljónum. Þar af voru búskröfur upp á 520 þúsund sem fengust að fullu greiddar, forgangskröfur upp á 225 milljónir, en 11,8 milljónir fengust greiddar upp í þær. Ekkert fékkst greitt upp í aðrar almennar og eftirstæðar kröfur.