Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid clouds lýkur í dag hlutafjárútboði sínu þar sem markmiðið er að safna samtals 400 milljónum króna til að ljúka útgáfu leiksins Starborne: frontiers og hefja markaðssetningu hans. Með útboðinu er samtals verið að rúmlega tvöfalda fjölda hluta í fyrirtækinu, en gengi þess er aðeins um 15% af því sem útboðsgengi þess var fyrir þremur árum.
Þegar hefur tekist að safna 220 milljónum af þessum 400 með bindandi fjárfestingaloforðum, en eftir standa 180 milljónir sem félagið vill safna með almennu útboði.
Fyrirtækið var stofnað árið 2013 af Stefáni Gunnarssyni og Stefáni Þór Björnssyni, auk þess sem Sigurður Arnljótsson, fyrsti forstjóri CCP, kom að stofnuninni. Félagið hefur í fimm skipti sótt sér fjármagn til að halda þróun leiksins áfram. Fyrst var það árið 2014 þegar sóttar voru 25 milljónir. Árið eftir voru sóttar 40 milljónir og árið 2016 komu inn 103 milljónir í nýtt hlutafé. Í fjármögnunarlotu frá 2017-2018 söfnuðust svo samtals 270 milljónir og var félagið þá samtals búið að safna 440 milljónum yfir fjögur ár. Gaf félagið á þessum tíma út upphaflega leikinn Starborne.
Árið 2021 var Solid clouds skráð á First north vaxtamarkaðinn og samhliða var farið í hlutafjárútboð. Hafði félagið stuttu áður kynnt að vinna ætti að nýjum leik, sem er fyrrnefndur Starborne: Frontiers. Söfnuðust þá 725 milljónir og var félagið metið á um 2,3 milljarða, en skráningargengi félagsins var 12,5 krónur á hlut. Þar með hafði félagið safnað um 1.165 milljónum á átta árum.
Gengið tók að lækka, en náði einu sinni aftur skráningargengi áður en það fór að lækka stöðugt á ný, sérstaklega síðan í september í fyrra, en á þeim tímamótum hætti félagið við að sækja aukalega 400 milljónir sem það stefnir á núna. Var þá stefnan á að sækja aukið hlutafé á genginu 7 krónur á hlut, en gengið er núna í útboðinu 2 krónur á hlut.
Spurður út í þessa þróun og hvað valdi lækkandi gengi segir Stefán Þór, fjármálastjóri Solid clouds, að tafir hafi orðið á útgáfu leiksins. Upphaflega var áformað að lokaútgáfa kæmi út seinni hluta síðasta árs. Segir hann að almennt sé þolinmæði fjárfesta takmörkuð og í kringum 12 til 18 mánuðir. „Þá byrjar gengið oft að gefa eftir,“ segir hann og bætir við að með nýsköpunarfyrirtæki þurfi fjárfestar að átta sig á að um langtímavegferð sé að ræða.
Þrátt fyrir tafirnar segir Stefán að hann sé mjög stoltur af lokaafurðinni og að ástæða tafanna sé meðal annars að ákveðið hafi verið að vanda enn frekar til verka þar sem tölvuleikjamarkaðurinn sé mikill samkeppnismarkaður.
Hann segir markaðsaðstæður einnig vera allt aðrar í dag en fyrir þremur árum þegar félagið var skráð á markað. „Mögulega voru mistök að taka ekki inn meira fé þá,“ segir Stefán, en eins og þekkt er höfðu hlutabréf almennt hækkað mikið í gegnum faraldurinn og voru þarna í miklum hæðum, samhliða lágum stýrivöxtum.
Félagið reyndi sem fyrr segir útboð í haust en ákveðið var að hætta við. Stefán segir að þeir hafi metið það sem svo að markaðsaðstæður hafi verið mjög slæmar þá.
Ljóst er að gengi félagsins hefur lækkað enn frekar síðan í september og segir Stefán að mögulega hefði verið betra að halda sig við útboðið þá, en að þeim hafi hins vegar tekist að snúa stöðunni við á einn hátt sem hafi skipt miklu máli. Þannig hafi félagið tryggt sér 220 milljónir, af þeim 400 milljónum sem nú er reynt að sækja, með fjárfestingaloforðum frá stjórnarmönnum, stofnendum og stærri hluthöfum. Segir Stefán það segja sína sögu að þessir aðilar, sem þekki hvað best til rekstursins, ætli að leggja félaginu til frekara fjármagn.
Miðað við að hlutabréfaverð Solid clouds hefur lækkað um tæplega 85% frá skráningu liggur beint við að spyrja hvað tækifæri fjárfestar eigi að sjá í því að leggja félaginu til aukið hlutafé á þessum tímapunkti.
Stefán svarar því til að félagið sé í dag með fullkláraða vöru, þ.e. leikinn og þar með minni óvissu. Hönnunarferlið sé að baki og stefnt sé á lokaútgáfu í apríl. Fjármagnið eigi núna að nota meðal annars í markaðssetningu.
Hefur félagið meðal annars nýlega ráðið til sín Aron Ólafsson sem markaðsstjóra og Tanju Levo sem hefur það hlutverk að sjá um greiningar og stilla af markaðsherferðir. Hún er finnsk og hefur að sögn Stefáns um 20 ára reynslu á þessu sviði.
Þá segir Stefán að miðað við lækkun á gengi félagsins undanfarið telji hann að hægt sé að fá bréfin á nokkuð hagstæðu verði núna.
Samtals er verið að rúmlega tvöfalda fjölda hluta í Solid clouds með útgáfunni núna. Það þýðir í raun að fyrri hlutur er þynntur út um helming til að sækja aukalega 400 milljónir og að markaðsvirði bréfanna er metið á um 770 milljónir.
Eins og með fjölmarga tölvuleiki fyrir snjalltæki hefst útgáfuferlið nokkru áður en farið er í mikla markaðssetningu og lokaútgáfan er tilbúin. Stefán segir útgáfuferlið hafa byrjað í febrúar í fyrra og síðan þá hafi stærri leikjakerfum verið bætt við og síðar hafi þau og tekjukerfi leiksins verið slípuð til.
Þrátt fyrir að leikurinn sé hannaður fyrir snjalltæki verður einnig útgáfa fyrir borðtölvu sem kemur út samhliða lokaútgáfunni í apríl.
Árið 2018 þegar mbl.is ræddi við Stefán um stöðu á þróun leiksins sagði hann að það þyrfti um 20-40 þúsund spilara til að fyrirtækið standi undir sér, en að raunhæft væri að horfa til þess að 200-300 þúsund myndu spila leikinn.
Hann staðfestir í dag að hann telji að 20 þúsund spilarar eigi að nægja til að leikurinn standi undir sér, en að markmiðið sé hins vegar að fá mun fleiri.
Frá því að prófunarfasi leiksins hófst hafa yfir 100 þúsund manns sótt leikinn. Spurður um reglulega notendur segir Stefán að sú tala hafi ekki verið gefin upp, en að fjöldinn hafi verið nægjanlegur til að geta staðið í prófunum og þróun leiksins síðasta árið. Hann segir að þegar farið verði í mikla markaðssetningu, samhliða lokaútgáfunni í apríl, muni spilurum fjölga mikið og að félagið geri ráð fyrir að það verði allavega nokkrir tugir þúsunda daglegra spilara.
Hlutafjárútboðinu lýkur í dag klukkan 16:00, en félagið er með staðfestingu ríkisskattstjóra sem nýsköpunarfélag og veita því kaup á hlutabréfum einstaklingum rétt á skattafrádrætti fyrir að lágmarki 300 þúsund og að hámarki 15 milljónir, í samræmi við lög um tekjuskatt.