Salome Hallfreðsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Rastar sjávarrannsóknarseturs, en það er nýstofnað dótturfélag Transition labs. Hún kemur til fyrirtækisins frá matvælaráðuneytinu, þar sem hún var sérfræðingur á skrifstofu sjálfbærni, en hún hefur einnig verið framkvæmdastjóri Landverndar.
Hlutverk Salome verður að byggja upp starfsemi Rastar í samstarfi við Carbon to Sea Initiative sem er óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun. Markmiðið er að efla alþjóðlegar rannsóknir og þekkingu á hlutverki hafsins við að fanga og binda gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu.
Salome er umhverfisfræðingur að mennt. Hún lauk B.Ed. gráðu í kennslu náttúrugreina í Kennaraháskóla Íslands árið 2005 og árið 2011 lauk hún M.Sc gráðu í umhverfisfræðum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.
Áður hefur Salome starfað sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, ráðgjafi í umhverfismálum hjá Environice og sem verkefnastjóri og síðar framkvæmdastjóri Landverndar.
Transition labs er fyrirtæki sem leitar að erlendum loftlagsverkefnum og aðstoðar við að koma þeim á legg hér á landi og auðveldar þeim að skala fyrirtækin upp í rekstrarhæfa stærð. Fyrirtækið á í samstarfi við sum af metnaðarfyllstu loftslagsverkefnum heims. Að baki stofnun Transition Labs standa Davíð Helgason, stofnandi Unity og Kjartan Örn Ólafsson, frumkvöðull og tæknifjárfestir.