Í dag klukkan 18:30 verður Lúðurinn veittur fyrir þær auglýsingar og markaðsefni sem best þótti á síðasta ári. Viðburðurinn er hluti af ÍMARK-deginum en ÍMARK eru samtök íslensks markaðsfólks.
Í tilefni dagsins hafði Morgunblaðið samband við fjóra sérfræðinga og innti þá eftir hvaða herferðir, auglýsingar og fyrirtæki hefðu staðið upp úr markaðslega á síðasta ári.
Hildur Björk Hafsteinsdóttir, forstöðumaður markaðsmála og upplifana hjá VÍS, segir að sparisjóðurinn Indó hafi verið meðal þeirra sem upp úr stóðu. „Fyrirtækið kom inn á frekar íhaldssaman markað með ferska ásýnd og góða aðgreiningu, vörulega en einnig markaðslega. Herferðin þeirra endurspeglaði vörumerkið vel á ólíkum miðlum. Síðan fannst mér Síminn gera geggjaða hluti með Iceguys. Öll markaðssetning á þáttunum var frumleg, almannatengslahlutinn var flottur og þættirnir voru bara virkilega skemmtilegir,“ segir Hildur.
Hún segist einnig hafa haft mjög gaman af Orkusölunni og herferðinni „Í hvað fer þín orka?“ „Lagið og þá aðallega textinn er spot-on og það sem situr eftir. Að lokum finnst mér herferðin hjá Hreyfingu geggjuð. Hún gefur þessa premium-tilfinningu sem er akkúrat það sem líkamsræktarstöðin stendur fyrir,“ segir hún.
Óli Rúnar Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, segir að fyrst og fremst hafi það verið ánægjulegt að horfa yfir síðasta ár og sjá áframhaldandi almennan vöxt í gæðum á framleiddu efni. „Auglýsingar sem meðal annars koma upp í hugann er Nova – elskum öll-herferðin, Ekki skúta upp á bak frá Samgöngustofu og Vís, og Orkusalan með heiðurssnúning á Einari Áttavillta. Svo verður maður eiginlega að minnast á Iceguys-gjörninginn. Þar virðist stiginn einhver framúrstefnulegur fjúsjon-dans hápopps og kómíkur sem gjarnan finnur sig einhvers staðar á landamærum auglýsingalands.“
Óli segir að sú auglýsing sem gladdi hann sérstaklega og hafi verið eftirminnilegust fyrir sig hafi verið útvarpsauglýsing í miðju jólastuðinu. „Hún hljómaði sirka svona: Ef það er eitthvað leiðinlegra en að versla gjafir svangur, þá er það að versla gjafir edrú.“ Þar voru á ferð krakkarnir í fataversluninni og veitingastaðnum Nebraska. Þetta þarf því ekki alltaf að vera flókið,“ segir Óli.
Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, var sérstaklega hrifin af markaðsherferð Háskólans á Bifröst sem auglýsingastofan Cirkus gerði. „Risatölvan á bílaplaninu í Smáralind var geggjað dæmi. Hún fékk mig til að hugsa hvort tími væri kominn til að setjast aftur á skólabekk og skrá mig í fjarnám. Þá fannst mér útvarpsauglýsingarnar í herferð skólans líka mjög fyndnar og sniðugar.“
Hún segir að sumarauglýsing Krónunnar sem Brandenburg gerði hafi líka verið mjög góð. „Ég er algjör sökker fyrir „feel good“-auglýsingum og mér fannst þessi vera með allan pakkann. Ég vil líka nefna auglýsingar Billboard; „Stærsta lestrarbók í heimi“. Þær voru mjög flottar og gripu augað hvert sem ég fór.“
Nadine var einnig ánægð með verkefni Play, þó að þar sé hún ekki hlutlaus eins og hún nefnir sjálf. „PR-stuntið um milljónasta farþega flugfélagins fannst mér geggjað. Milljónasti farþeginn var verkefni þar sem við komum milljónasta farþeganum okkar á óvart með því að gefa honum frítt flug út ævina. Umræddur farþegi var á leið frá Liverpool til Íslands. Hann var alveg grunlaus þegar hann gekk beint inn í fögnuðinn á Keflavíkurflugvelli. Allt ferlið var myndað með földum myndavélum og úr varð myndband sem fór víða og tryggði okkur ekki bara umfjallanir í stærstu miðlum Íslands heldur einnig í stórum miðlum á Englandi, Ítalíu, Þýskalandi og Danmörku. Það er að mínu mati fátt verðmætara fyrir fyrirtæki en góðar PR-herferðir.“
Kára Sævarssyni, sköpunarstjóra hönnunar- og auglýsingastofunnar TVIST, fannst jólaauglýsing IKEA vel heppnuð. „Einhver gætu sagt að það sé nánast eins og að spila með forgjöf að gera jólaauglýsingar en auglýsingin er svo falleg, hjartnæm og allt handverk í kringum hana vandað. Það hefur verið gaman að sjá IKEA eiga endurkomu sem skemmtilegur auglýsandi. Herferð þeirra í fyrra „Hvernig hljómar IKEA“ var sérstaklega hress og skemmtileg. Kókómjólkurauglýsingin sýnir líka að auglýsingar sem hafa framvindu og frásögn eiga alltaf erindi.“
Kári segir annars forvitnilegt að sjá hve hátt hlutfall af þeim auglýsingum og herferðum sem tilnefndar eru í ár leggi áherslu á tjáningar- og einstaklingsfrelsi. „Frelsið til að vera við sjálf. Þetta er rauður þráður í herferðum Orkusölunnar, Indó, Nova, Libresse og ekki má gleyma Epal með sínar regnbogalituðu hillur. Sú gamla aðferð að „hampa kostum vörunnar“ er lítið sem ekkert sjáanleg.“
Í almannaheillaflokkunum segir Kári að tvær nálganir togist á. Annars vegar beinskeytt skilaboð eins og í herferð Ljóssins eða alvarleg skilaboð í gamansömum umbúðum líkt og í herferðum Vinnueftirlitsins, Mottumars og Umferðarstofu. „Það er ekki hægt að komast hjá því að nefna að stórir og rótgrónir auglýsendur eins og gömlu bankarnir og tryggingafélögin eru áberandi fjarverandi í keppninni í ár þrátt fyrir að vera býsna fyrirferðarmikil í birtingum og sjáanleg í samfélaginu,“ segir Kári að lokum.