Heimstaden í íslenska eigu

Um er að ræða 1.600 íbúðir á leigumarkaði.
Um er að ræða 1.600 íbúðir á leigumarkaði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sjóður í eigu íslenskra lífeyrissjóða og í stýringu Stefnis hefur keypt leigufélagið Heimstaden á Íslandi sem er með 1.600 íbúðir á leigumarkaði.  

Í tilkynningu segir að seljandinn sé norska fjárfestingafélagið Fredensborg AS sem er móðurfélag Heimstaden AB, sem er eitt stærsta íbúðafélag Evrópu. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Þá segir að að upphaflega hafi verið tilkynnt um fyrirhuguð kaup sjóðsins, sem er í stýringu Stefnis, í október sl. en samkomulagið var með fyrirvörum, meðal annars um fjármögnun sem hefur nú verið aflétt. Málið er nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Hætt við sölu og uppsagnir dregnar til baka

Þá segir að með þessum áfanga sé uppsögn á leigusamningum um 250 heimila dregin til baka en Heimstaden hafði tilkynnt áform um að selja eignir sínar á almennum markaði og draga sig úr leigustarfsemi hér á landi. Þá verða auk þess yfir 60 íbúðir teknar úr söluferli og auglýstar lausar til leigu á næstu vikum, sem ætla má að muni hafa jákvæð áhrif á húsnæðisframboð á leigumarkaði en umræddar íbúðir eru allar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu. 

Hyggjast auka aðgengi að húsnæði 

„Langtímaáform nýrra eigenda Heimstaden er að skapa þjónustudrifið leigufélag sem verður nýtt uppbyggingarafl á íbúðamarkaði og þannig styðja við markmið stjórnvalda um aukið aðgengi að húsnæði. Félagið hyggst fjármagna uppbyggingu nýrra íbúða til útleigu með það að markmiði að tvöfalda stærð félagsins á næstu árum.“

Egill áfram framkvæmdastjóri 

„Undanfarið hefur mikil óvissa ríkt á meðal starfsfólks og leigjenda um framtíð félagsins en með kaupunum hefur framtíð þess verið tryggð og eignasölu félagsins hefur nú verið hætt. Egill Lúðvíksson mun halda áfram sem forstjóri félagsins og engar breytingar verða gagnvart starfsfólki Heimstaden sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á leigumarkaði og er félaginu mjög verðmætt,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK