Í febrúar síðastliðnum voru þegar mest lét 14 flug á dag milli Íslands og Lundúna, þrátt fyrir að þessi tími sé lágönn í alþjóðaflugi. Til Englands og Skotlands voru flugin 24 á dag þegar mest lét.
Þetta kom fram í ræðu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á aðalfundi félagsins í gær. Hann tók fram að Icelandair hefði dregið úr framboði sínu til Bretlandseyja í febrúar.
Í ræðu sinni vakti Bogi athygli á því að um 30 flugfélög starfræktu flug til Íslands yfir sumartímann en mörg þeirra allt árið um kring. Þar væri meðal annars um að ræða stærstu flugfélög Evrópu og Norður-Ameríku sem búa yfir mikilli stærðarhagkvæmi og gera oft út frá löndum þar sem kostnaður er að meðaltali mun lægri en hér á landi.
Bogi Nils vakti meðal annars athygli rekstarumhverfinu hér á landi og stöðu íslensku flugfélaganna í samkeppni við önnur mun stærri alþjóðleg flugfélög.
„Í allri Evrópu má segja að það séu tveir flugvellir þar sem tvö tengiflugfélög eru með heimahöfn á sama vellinum, það eru London Heathrow og Keflavíkurflugvöllur,“ sagði Bogi Nils.
Hann bætti við að Schiphol flugvöllur í Amsterdam væri stór tengiflugvöllur og þar væri eitt tengiflugfélag með heimahöfn. Það sama mætti segja um Charles De Gaulle í París. Á umræddum flugvöllum starfa tvö flugélög sem eru sameinuð, Air France/KLM. Þá nefndi Bogi Nils einnig að í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi væru þrjú alþjóðleg flugfélög sem máli skipta, SAS, Finnair og Norwegian. Á síðustu þremur árum hafi tvö önnur flugfélög verið sett á laggirnar í Noregi, annað væri þegar gjaldþrota og hitt hafi verið í taprekstri frá fyrsta degi. Þá benti hann á að í Bandaríkjunum, hvað um 340 milljónir manna búa, væru fjögur flugfélög með um 80% markaðshlutdeild.
Óraunhæft að reka tvö flugfélög með sjálfbærum hætti
„Ég bið ykkur um að setja þessi dæmi í samhengi við stöðuna á Íslandi og velta fyrir ykkur. Er ástæða til að ætla að fluggeirinn hér lúti öðrum lögmálum en í löndunum í kringum okkur?“ sagði Bogi Nils og sagði það vera skyldu sína að fara yfir rekstrarumhverfið með hluthöfum félagsins.
Fyrr í ræðu sinni hafði Bogi Nils neft að ýmis atriði hefðu áhrif á afkomu flugfélaganna, sem getur sveiflast mikið eftir markaðsaðstæðum og eftir tilvikum því hvernig náttúruöflin þróast hverju sinni. Því væri mikilvægt að búa yfir fjárhagslegum styrk til að takast á við þær áskoranir. Hann benti á að öll flugfélög þyrftu að takast á við olíuverð og gengi gjaldmiðla.
„Eins og fram hefur komið skilaði Icelandair hagnaði, sem var ágætis árangur miðað við aðstæður en undir langtímarekstrarmarkmiðum okkar, og við gerum ráð fyrir auknum hagnaði á árinu 2024. Á meðan var hitt alþjóðlega flugfélagið á Íslandi í verulegum taprekstri á árinu 2023 og hefur gefið út að svo verði áfram árið 2024. Heildarafkoma íslensku flugfélaganna er því talsvert lakari en við erum að sjá í kringum okkur, af hverju skyldi það vera?“ spurði Bogi Nils.
„Fyrir nokkrum árum var ég spurður að því í viðtali hvort það væri raunhæft að reka tvö tengiflugfélög með heimahöfn á Keflavíkurflugvelli með sjálfbærum hætti. Ég svaraði því neitandi og vísaði í söguna á Íslandi og aðstæður á mörkuðunum í kringum okkur. Horfandi á þróunina hér á landi og úti í heimi síðustu ár get ég ekki betur séð en svarið eigi enn vel við. Gögnin tala sínu máli.“
Hann ítrekaði þó í framhaldinu að samkeppni væri af hinu góða hvort sem er í flugrekstri eða öðrum rekstri.
„Við fögnum mjög allri samkeppni við öll þessi alþjóðlegu flugfélög, á mörkuðunum til og frá Íslandi og á Norður Atlantshafinu. Og fyrir okkur hjá Icelandair er það beinlínis jákvætt að hafa innlendan samkeppnisaðila sem er skráður á markað og birtir ýmsar upplýsingar sem við getum borið okkur saman við. Slíkur samkeppnisaðili heldur okkur enn frekar á tánum - sem er mjög verðmætt. En til lengri tíma þarf rekstur auðvitað að vera sjálfbær,“ sagði hann og vísaði þar til flugfélagsins Play, sem skráð er á First North markaðinn en hefur boðað flutning yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar.
Segir Icelandair með rétta viðskiptalíkanið
Þá sagði Bogi Nils að það væri enginn vafi í hans huga um að Icelandair væri að reka rétta viðskiptalíkanið fyrir tengiflug á Íslandi.
„Við gætum auðveldlega lækkað einingakostnaðinn okkar um tugi prósenta með því að breyta vörunni okkar, fjölga sætum um borð og draga úr krafti í sölu og dreifingu. En slíkt kæmi í bakið á okkur þar sem það hefði neikvæð áhrif á tekjumyndun. Allar okkar greiningar sýna fram á að tekjur myndu lækka meira en kostnaður,“ sagi hann.