Yfir 100 milljarðar í innlánum hjá Auði

Hilmar Kristinsson, vörustjóri Auðar hjá Kviku banka.
Hilmar Kristinsson, vörustjóri Auðar hjá Kviku banka.

Staða innlána Auðar, fjármálaþjónustu Kviku, hefur náð yfir 100 milljörðum króna. Viðskiptavinir eru nú um 45 þúsund.

Þetta segir Hilmar Kristinsson, vörustjóri Auðar, í samtali við Morgunblaðið. Auður, sem býður upp á bundna og óbundna sparnaðarreikninga á hagstæðum vöxtum, er fimm ára í dag en hún tók á móti fyrstu innlánum þann 12. mars 2019. Þjónustan naut strax vinsælda, en haustið 2019 námu innlán hjá Auði þá þegar tæpum 14 milljörðum króna. Í viðtali við þáverandi forstjóra Kviku í lok ágúst 2022 kom fram að innlán hjá Auði næmu þá um 50 milljörðum króna. Þau hafa því tvöfaldast síðan þá.

Hreyfði við innlánamarkaði

Hilmar rifjar upp að þegar Auður kom fyrst á markað hafi markmiðið verið að bjóða upp á hærri vexti á óbundnum sparnaðarreikningum en aðrir. Þá voru vextir 4%. Aðrir bankar fylgdu í kjölfarið og hófu að hækka sína vexti á innlánsreikningum.

„Auður hreyfði við markaðnum og hefur frá upphafi aukið samkeppni á innlánamarkaði, til hagsbóta fyrir heimilin í landinu,“ segir Hilmar og bætir við að Auður bjóði enn upp á hæstu vexti á óbundnum reikningum.

„Það má áætla að Auður hafi, bæði með sinni þjónustu og öflugri samkeppni frá hinum bönkunum, fært heimilum landsins tugi milljarða í auknar vaxtatekjur,“ segir hann.

Stefna á aukið vöruframboð

Þjónustan hefur þróast á þeim tíma sem liðinn er frá því að Auður hóf starfsemi. Nú er einnig boðið upp á bundna innlánsreikninga sem bera enn hærri vexti og í fyrra hóf Auður að bjóða upp á græna framtíðarreikninga fyrir börn og unglinga.

Hilmar segir að vöruframboð Auðar sé í stöðugri þróun og það muni ekki fara fram hjá neinum þegar nýjungar bætast við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK