Kostnaður við byggingu lúxushótelsins Höfða Lodge á Grenivík við Eyjafjörð hefur aukist talsvert frá því sem upphaflega var áætlað, að sögn Björgvins Björgvinssonar eins eigenda verkefnisins. Hann rekur einnig þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing og skíðaferðafyrirtækið Scandic Guides ásamt Jóhanni Hauki Hafstein. Þá hafa orðið tafir á opnun hótelsins.
Ástæðan er m.a. verðhækkanir vegna stríðsátaka og faraldurs.
„Þetta er búið að kosta töluvert meira en það átti að gera en við erum alveg rólegir út af því. Við höldum okkar striki. Við erum núna að bíða eftir húseiningum frá Lettlandi. Koma þeirra hefur tafist vegna vonds sjóveðurs. Þær koma vonandi eftir tvær vikur,“ segir Björgvin í samtali við Morgunblaðið. Upphaflega átti að opna hótelið árið 2022 en Björgvin segir að aðstandendur láti sig nú dreyma um að opna í mars-apríl á næsta ári, 2025.
„Þetta er gríðarlega flókin og mikil bygging en við erum farin að sjá til lands“ segir Björgvin.
Hótelið verður 6.000 fermetrar og herbergin 40. Eins og áður hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu eru herbergin öll mjög stór, allt upp í 180 fermetrar, hvert og eitt með útsýni út á Eyjafjörðinn. Meðal þess sem boðið verður upp á í hótelinu er golfhermir, stórt spa, fundarherbergi, veitingastaður, vínherbergi og bar á efstu hæð. Einnig verður byggt 900 fermetra starfsmannahús. Fimmtíu manns koma til með að starfa á hótelinu.
„Við erum búin að reisa starfsmannahúsið og hesthúsið og hótelið er í dag komið í fjórar hæðir. Okkur vantar bara þessar einingar frá Lettlandi til að loka húsinu. Það ætti að geta orðið fokhelt í maí nk.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 16. mars.