Mun ekki taka þátt í sölu Landsbankans

Katrín Jakobsdóttir var skýr í svörum um sölu á Landsbankanum …
Katrín Jakobsdóttir var skýr í svörum um sölu á Landsbankanum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vil segja að það er algjörlega skýrt af minni hálfu að ég mun ekki taka þátt í því að selja hluti í Landsbankanum.“

Þessu svaraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við óundirbúinni fyrirspurn Kristrúnu Frostadóttur á Alþingi í dag.

Skýr sýn að ekki skuli selja Landsbankann

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði í Facebook-færslu í gær að hún myndi ekki samþykkja kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM nema ef bankinn yrði seldur samhliða.

„Það liggur skýrt fyrir í eigendastefnu ríkisins að ekki eigi að horfa til þess fyrr en að lokinni sölu á Íslandsbanka. Það var það sem þessi ríkisstjórn ákvað og það er fullkominn skilningur á því að mín hreyfing hefur haft þá skýru sýn að ekki skuli selja hlut í Landsbankanum þannig að því er þá skýrt svarað hér.”

Kristrún segir kaup Landsbankans vera risastóra breytingu á eigendastefnu ríkisins og inngrip á fjármálamarkaðinn. Katrín segir mikilvægt að öllum ferlum sé fylgt eins og lögin um bankasýslu ríkisins gera ráð fyrir.

Viðskiptalegar ákvarðanir ekki á borði ráðherra

Kristrún spurði jafnframt Katrínu hvort til stæði að grípa inn í og stöðva kaup Landsbankans.

„Auðvitað er hin almenna regla sú að viðskiptalegar ákvarðanir bankans [Landsbankans] eru ekki á borði fjármálaráðherra hverju sinni en teljist þetta vera meiri háttar ákvörðun skuli það bera undir bankasýsluna,“ svaraði Katrín.

„Fyrst og fremst er afstaða mín til þess að við þurfum að fylgja þeim reglum sem við höfum sjálf sett okkur um þessi mál þar og það þýðir að slíka ákvörðun þarf að bera undir Bankasýslu ríkisins.“

Þessu svaraði Katrín við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Miðflokksins, um hver afstaða hennar væri til kaupa Landsbankans á TM.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK