Þarf pólitíska einingu til að hefja söluferli

Stjórn Kviku banka hef­ur ákveðið að taka til­boði Lands­bank­ans um …
Stjórn Kviku banka hef­ur ákveðið að taka til­boði Lands­bank­ans um kaup á hluta­fé TM trygg­inga hf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðherra segir þurfa pólitíska einingu sitjandi ríkisstjórnar til að hefja söluferli Landsbankans. 

Í forgangi sé þó að klára söluna á Íslandsbanka. Lagði hún fram frumvarp um þau áform á fundi ríkisstjórnar í morgun sem mun fara fyrir þingið.

„Og vonandi verður hægt að afgreiða það í nægjanlega góðri sátt svo við getum klárað það verkefni síðari hluta þessa árs og á næsta ári,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra í samtali við mbl.is.

Vill gefa bankaráði tíma

Á sunnudag var greint frá því að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé TM trygginga. 

Í bréfum Bankasýslu ríkisins til fjármálaráðherra í gær kom fram að stofnunin, sem fer með 98,2% hlut í bankanum, hefði ekki verið upplýst um fyrirhuguð kaup bankans á TM. Þórdís Kolbrún segir ótímabært að leggja mat á hvort bankaráðið hafi brotið traust með því að greina Bankasýslunni ekki frá kaupunum.

„Ég tel mikilvægt að bankaráð Landsbankans fái þann tíma sem Bankasýslan gefur henni til þess að svara þessum spurningum um aðdraganda, ákvarðanir og annað slíkt, áður en hægt verður að leggja mat á það því þær upplýsingar hef ég ekki.

Ósammála fjármálaráðherra

Óeining ríkir innan ríkisstjórnarinnar um hvort selja eigi hluti í Landsbankanum.

Ljóst er að Þórdís Kolbrún er ekki ánægð með ákvörðun bankans vegna kaupanna á TM og sagði á sunnudag að viðskiptin yrðu ekki að veruleika með hennar samþykki nema ef söluferli bankans myndi hefjast samhliða.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær á Alþingi að hún myndi ekki taka þátt í því að selja hluti í bankanum. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra tók í sama streng og vísaði því á bug að bankinn yrði seldur.

Kaupin ekki á stefnuskránni

Ef að Landsbankinn færi í söluferli, hvenær og með hvaða hætti gæti það gerst?

„Það þyrfti pólitíska einingu sitjandi ríkisstjórnar um það til að hefja það ferli. Stjórnarsáttmálinn talar um það að það sé verkefni þessarar ríkisstjórnar að klára söluna á Íslandsbanka og það er það sem ég er með sem forgangsatriði og er að leggja höfuðáherslu á. En það var einfaldlega ekki á stefnuskránni að þenja út ríkisbankann og kaupa fyrirtæki á markaði sem er ekki í hefðbundinni bankastarfsemi.“

Telurðu líklegt að það muni gerast á meðan þessi ríkisstjórn er starfandi?

„Núna erum við með allan fókus á að klára að selja Íslandsbanka, það er stórt mál sem þarfnast umræðu í þinginu og vonandi eins mikillar sáttar og trausts og þarf í svoleiðis verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK