Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra segir það skýrt markmið í eigendastefnu ríkisins að minnka og draga úr eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum og umbreyta þeim fjármunum í innviði sem nýtast almenningi öllum.
Hún segir undarlegt að Landsbankinn kaupi fyrirtæki á almennum markaði fyrir tæpa 30 milljarða. Það sé hvorki í anda eigendastefnuna né stjórnarsáttmála.
Greint var frá því á sunnudag að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé TM trygginga hf. Er kaupverðið 28,6 milljarðar.
Þórdís Kolbrún lýsti því yfir í færslu á Facebook að hún myndi ekki samþykkja kaup Landsbankans á tryggingarfélaginu nema söluferli bankans hefjist samhliða.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á öðru máli og sagði það algjörlega skýrt af sinni hálfu að hún myndi ekki taka þátt í því að selja hluti í Landsbankanum.
„Ég var með minnisblað og þessi tvö bréf og við tókum umræðu um þetta áðan, sem var gagnleg og mikilvæg,“ segir Þórdís, spurð hvort ágreiningurinn hafi komið til tals á ríkisstjórnarfundinum sem haldinn var í morgun. Vísar hún þar í bréf sem Bankasýsla ríkisins sendi bæði til fjármálaráðuneytisins og bankaráðs Landsbankans vegna kaupanna.
Í bréfunum kom m.a. fram að Bankasýslan hefði ekki verið upplýst um fyrirhuguð kaup bankans á TM.
„Það eru engin áform hvorki í stjórnarsáttmála né í eigendastefnu að ríkisbanki stígi inn á nýjan markað og kaupi fyrirtæki á öðrum markaði fyrir tæplega 30 milljarða króna og geri það að ríkisfyrirtæki. Ef að það er það sem gerist þá þarf að setja það í eitthvað annað samhengi.“
En það að Landsbankinn geti keypt fyrirtæki, Landsbanki sem er í eigu ríkisins að eiginlega öllu leyti, fyrir 30 milljarða króna án þess að bera það undir ráðuneytið, kallar það á breytt verklag eða þarf að endurskoða eitthvað?
„Það er allavega undarleg staða að vera í. Á meðan að málið er í þessum farvegi og Bankasýslan er að afla upplýsinga, þá leyfi ég því að gerast, áður en að næstu skref eru metin. En ég held að það hljóti allir að sjá að það er undarlegt að ríkisfyrirtæki stígi inn á nýjan markað og kaupi fyrirtæki á almennum markaði fyrir tæplega 30 milljarða, sem er ekki í anda eigendastefnu ríkisins né stjórnarsáttmála,“ segir Þórdís.
Hefur hið opinbera, ráðuneytið eða Bankasýslan, einhver völd til að stöðva þessi kaup?
„Eins og ég segi þá er málið núna í höndum Bankasýslunnar og þau hafa óskað eftir ákveðnum upplýsingum til að geta lagt frekar mat á málið, og sögðu í gær að þau hefðu ekki fengið upplýsingar um að þetta væri að gerast með formlegum hætti, sem að þeim þótti miður og töldu að ætti að vera, þannig að þetta verður að fá að fara sína leið áður en ég get lagt frekar mat á málið, ekki fyrr en upplýsingarnar liggja fyrir.“