Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna er umfangsmikið, enda er greinin stór hér á landi.
Heildarskattspor iðnaðar nam 462 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics, en Samtök Iðnaðarins(SI) fengu fyrirtækið til þess að reikna skattspor iðnaðarins á því ári með sambærilegum hætti og hefur verið gert með aðrar atvinnugreinar.
Þetta kemur fram í greiningu SI sem er birt á heimsíðu samtakanna.
Þá segir í greiningunni að þröngt skattspor iðnaðarins, þ.e. án virðisaukaskatts, hafi verið á því ári 213 milljarðar kr., en til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 92 ma.kr. og sjávarútvegsins 85 m.kr. árið 2022. Á tímabilinu frá 2017 til 2022 er samanlagt heildar skattspor iðnaðarins 2.441 ma.kr.
Þá er bent á að framlag iðnaðar til lífskjara hér á landi má mæla með ýmsum hætti. Hið stóra skattspor greinarinnar endurspeglar þá staðreynd að umfang iðnaðar er mikið í íslensku efnahagslífi en hann stendur undir 26% verðmætasköpunar hagkerfisins. Hlutur greinarinnar í verðmætasköpun hagkerfisins hefur verið að aukast síðustu ár.
Ljóst er að virðiskeðja iðnaðarins hefur mikil og jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækja fyrir utan greinina. Vægi greinarinnar í landsframleiðslu og þar með skatttekjum hins opinbera er því meira en ofangreindar tölur um hlutdeild í landsframleiðslu og skattspor sýna ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með, segir enn fremur í greiningu SI.