Jón Skaftason hættir í stjórn Sýnar

Jón Skaftason.
Jón Skaftason.

Jón Skaftason, stjórnarformaður Sýnar, mun víkja úr stjórn félagsins á aðalfundi sem haldinn verður 11. apríl nk. Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að hann hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Tilnefningarnefndin leggur til að eftirtaldir þrír af núverandi stjórnarmönum verði kjörnir á ný. Það eru þau Hákon Stefánsson, Páll Gíslason og Rannveig Eir Einarsdóttir. Hákon og Rannveig Eir komu ný inn í stjórn Sýnar í kjölfar auka-hluthafafundar sem haldinn var haustið 2022 eftir að nýir eigendur komu að félaginu. Rannveig er þriðji stærsti hluthafi í Sýn ásamt eiginmanni sínum, Hilmari Þór Kristinssyni, í gegnum fjárfestingarfélag þeirra.

Þá leggur tilnefningarnefndin til að Petrea Ingileif Guðmundsdóttir taki sæti í stjórn á ný. Hún var áður stjórnarformaður Sýnar en dró framboð sitt til baka fyrir fyrrnefnda auka-hluthafafund félagsins sem haldinn var haustið 2022. Það kom til eftir að Bjarni Bjarnason, þáverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, setti eiginmanni hennar Benedikt K. Magnússyni, fjármálastjóra Orkuveitunnar, afarkosti vegna starfs síns ef hún héldi áfram í stjórn Sýnar.

Tilnefningarnefndin leggur loks til að Ragnar Páll Dyer verði tilnefndur í stjórn. Hann er framkvæmdastjóri hjá InfoCapital ehf., sem er í eigu Reynis Grétarssonar fjárfestis, sem oft er kenndur við Creditinfo. Þess má geta að Hákon Stefánsson er framkvæmdastjóri InfoCapital og því má segja að Reynir, sem er einn stærsti hluthafi Sýnar, verði með tvo aðila á sínum vegum í stjórn.

Auk Jóns Skaftasonar mun Salóme Guðmundsdóttir jafnframt víkja úr stjórn verði farið eftir tillögum tilnefningarnefndar. Hún hefur setið í stjórn félagsins frá ársbyrjun 2023. Hún var áður í varastjórn en tók sæti Sesselju Birgisdóttur, þegar Sesselja var ráðin framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála hjá Sýn og sagði sig í kjölfarið úr stjórn félagsins. Ekki eru gefnar frekari skýringar á brotthvarfi Salóme í skýrslu tilnefningarnefndar.

Þá leggur nefndin til að Daði Kristjánsson og Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir verði áfram kjörin í varastjórn.

Petrea Ingileif Guðmundsóttir var áður stjórnarformaður Sýnar.
Petrea Ingileif Guðmundsóttir var áður stjórnarformaður Sýnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka