Nokkur hundruð manns munu á næstu vikum geta gengið frá fasteignakaupum í kjölfar jarðhræringanna í Grindavík. Þeir sem óska endurmats á brunabótamati þurfa að gera það áður en þeir sækja um að Fasteignafélagið Þórkatla kaupi eignina.
Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteigna hjá HMS, segir alls hafa borist 911 beiðnir um endurmat á brunabótamati eigna í Grindavík.
„Af þeim höfum við þegar afgreitt 755 en aðrar umsóknir eru í vinnslu. Á sama tíma hafa 17 erindi borist um fyrsta brunabótamat og höfum við afgreitt öll nema tvö.“
Fasteignafélaginu Þórkötlu hafa borist um 550 umsóknir um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Þórkötlu segir félagið stefna að því að vera komið langt með að afgreiða umsóknirnar í lok apríl.
„Við höfum ekki hafið kaup á eignum. Við erum enn að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf. Það er verið að stilla upp stafrænu kaupferli og í því verða rafrænir kaupsamningar, rafrænar undirritanir og rafræn þinglýsing.
Við stefnum að því að vera komin langt í kaupferlinu í lok apríl. Við erum nokkuð keik á því. Það er búið að vinna mikla bakvinnu í þessu máli þannig að við teljum það raunhæft,“ segir Örn Viðar. Eftirspurn frá Grindvíkingum hefur víða áhrif á íbúðamarkaði. Þ.m.t. í Grænubyggð.
Ásdís Ósk Valsdóttir, löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls fasteignasölu, segir tafir á uppkaupum ríkisins á fasteignum í Grindavík hafa tafið gerð kaupsamninga.
Því megi búast við að mörgum kaupsamningum verði þinglýst þegar stíflan brestur.
Meira í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.