Ávöxtun bankareikninga batnar verulega

Bankarnir bjóða sautján verðtryggða reikninga og eru vísbendingar um að …
Bankarnir bjóða sautján verðtryggða reikninga og eru vísbendingar um að einstaklingar hafi fært milljarða af óverðtryggðum reikningum yfir á nýja verðtryggða reikninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ávöxtun bankareikninga batnar verulega á milli ára þótt enn sé rauði liturinn áberandi varðandi raunávöxtun. Það segir þó ekki alla söguna því rauðu tölurnar eru allt aðrar og hagstæðari en áður – og flestar rétt undir núllinu í stað þess að vera á bilinu -4% til -8% á árinu 2022. Þá bendir margt til þess að bankareikningar séu í harðari samkeppni við hlutabréf og sjóði verðbréfafyrirtækjanna en áður, ekki síst þeir verðtryggðu.

Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu hins árlega rits Fjármál og ávöxtun. Ritið er gefið út af Jóni G. Haukssyni, fv. ritstjóra Frjálsrar verslunar. Þetta er í sjöunda sinn sem blaðið kemur út en þar er birt yfirlit yfir ávöxtun allra innlánsreikninga banka og sjóða verðbréfafyrirtækja á Íslandi sem og ávöxtun séreignasjóða lífeyrissjóðanna.

Árangur verðbréfajóða misjafn

Nýjasta tölublað Fjármála og ávöxtunar.
Nýjasta tölublað Fjármála og ávöxtunar.


Í úttekt ritsins kemur fram að sautján reikningar verðbréfasjóðanna voru með yfir 10% nafnávöxtun á síðasta ári og reyndist sjóður hjá Íslenskum verðbréfum, ÍV Erlent hlutabréfasafn, með hæstu ávöxtunina eða 32% nafnávöxtun. Ávöxtun séreignasjóða lífeyrissjóðanna var mjög misjöfn – og margir sjóðir sem skila neikvæðri raunávöxtun.

Það vekur athygli að aðeins níu reikningar hjá stóru viðskiptabönkunum þremur voru með verri raunávöxtun en -1,5% á síðasta ári. Til samanburðar hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í fyrra um 5,4% og hélt ekki í við verðbólguna, þannig að útkoman var um -2% raunávöxtun. Margir bankareikningar skákuðu því íbúðamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu í ávöxtun á síðasta ári.

Nýir verðtryggðir reikningar vinsælir

Bankarnir bjóða sautján verðtryggða reikninga og eru vísbendingar um að einstaklingar hafi fært milljarða af óverðtryggðum reikningum yfir á nýja verðtryggða reikninga sem bankarnir buðu í kjölfar þess að Seðlabankinn afnam binditíma á verðtryggðum innlánum og lánstíma verðtryggðra útlána hinn 7. mars í fyrra. Þetta eru nýir verðtryggðir reikningar með tiltölulega stuttan úttektarfyrirvara, 90 daga, og njóta nú aukinna vinsælda.

Tímaritið Fjármál og ávöxtun er hægt að nálgast ókeypis í Bónus, Hagkaup og Nettó á höfuðborgarsvæðinu sem og á bensínstöðvum. Hægt er að lesa netútgáfu blaðsins hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK