Miðað við afkomu fyrstu tveggja mánaða ársins, núverandi bókunarstöðu og aðrar lykilforsendur gerir Icelandair ráð fyrir að heildartekjur flugfélagsins verði um 220 milljarðar króna á þessu ári og að hagnaður muni aukast.
Þetta kemur fram í afkomuspá Icelandair fyrir árið 2024. Þar segir að dregið hafi úr óvissu í rekstrarumhverfi. Áhrif af ónákvæmum fréttum af eldsumbrotum á Reykjanesskaga hafi minnkað, auk þess sem nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði skapi meiri stöðugleika.
„Gert er ráð fyrir að flugframboð, í sætiskílómetrum, aukist um 10% frá fyrra ári. Áherslan verður á að auka framboð inn á markaði sem hafa mikla tekju- og arðsemismöguleika. Vöxturinn var mestur á fyrsta ársfjórðungi eða um 21%. Gert er ráð fyrir um 9% vexti á öðrum og þriðja ársfjórðungi og 6% á fjórða ársfjórðungi,” segir í tilkynningu.
„Miðað við afkomu fyrstu tveggja mánaða ársins, núverandi bókunarstöðu og aðrar lykilforsendur gerir félagið ráð fyrir að heildartekjur verði um 220 milljarðar króna (1,6 milljarðar dala) á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að EBIT hlutfall verði um 2-4% af tekjum og að hagnaður eftir skatta aukist milli ára.”
Gert er ráð fyrir því að EBIT-afkoma á fyrsta ársfjórðungi 2024 verði aðeins lakari en 2023.
Fram kemur að bókunarstaðan fyrir sumarið sé góð, sérstaklega á Atlantshafsmarkaðnum um Ísland.
„Árið 2023 lauk endurreisninni hjá Icelandair eftir heimsfaraldurinn og reksturinn skilaði hagnaði á ný. Nú er áherslan fyrst og fremst á aðgerðir til að styrkja tekjumyndun enn frekar og ná fram aukinni skilvirkni í rekstrinum. Með þessar áherslur að leiðarljósi er Icelandair á réttri leið að ná langtímamarkmiði sínu um 8% rekstrarhagnað (EBIT) að meðaltali,” segir einnig í tilkynningunni.