Flugakademía Íslands hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Þetta staðfestir Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, í samtali við mbl.is.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá þá skilaði Iceland Aviation Academy ehf., sem rekur flugskólann Flugakademíu Íslands, tapi síðustu fimm ár.
Samanlagt tap félagsins síðustu fimm ár nam yfir 520 milljónum króna ef ársreikningar síðustu ára eru skoðaðir.
Eigið fé félagsins var neikvætt um rúmar 393 milljónir króna í lok ársins 2022.
Í september lokaði Flugakademía Íslands eftir langvarandi rekstarvanda. Akademían var dótturfélag Keilis en við lokun hennar var flugnámið fært undir Flugskóla Reykjavíkur.
Í byrjun febrúar var greint frá því að Fjölbrautaskóli Suðurnesja myndi taka við rekstri tveggja námsbrauta sem eru nú í rekstri Keilis, miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs. Fjórtán starfsmönnum Keilis var sagt upp.