Áform stjórnvalda að setja reglur sem kveða á um slit á opinberum sjóðum hafa sætt gagnrýni úr ýmsum áttum. Það á til að mynda við um fjárhagsvanda og yfirvofandi gjaldþrot Íbúðalánasjóðs (ÍL-sjóð) og fyrirhugaðan lagaramma um réttarstöðu þeirra sem eiga kröfur á hendur opinberum aðilum í slitameðferð, þar sem engum reglum er til að dreifa í núgildandi lögum.
ViðskiptaMogginn fjallaði í nóvember sl. um afstöðu lífeyrissjóða sem eiga íbúðabréf, en þeir telja að þrotareglur laganna fela í sér eignarnám, með þeim rökum að þegar ÍL-sjóður fer í slitameðferð mun það hafa í för með sér að allar kröfur á hendur honum verða gjaldfelldar áður en ávöxtunartími þeirra er liðinn.
Af því leiðir að lífeyrissjóðirnir telja að þeir sem eiga kröfur á hendur sjóðnum hafi ekki lengur ríkistryggð skuldabréf út samningstímann sem hefðu fjárhagslegt gildi og gætu gengið kaupum og sölum á almennum markaði.
Seðlabanki Íslands bendir á í umsögn sinni um lögin að það verði að lagfæra frumvarpið á þann veg að bankinn sé með skýrum hætti undanskilinn gildissviði laganna. Þannig telur bankinn mikilvægt að tryggt sé að aldrei verði nokkur möguleiki fyrir hendi að bankanum verði slitið með þeim hætti sem kveðið er á um í frumvarpinu.
„Trúverðugleiki bankans til að sinna lögbundnum hlutverkum sínum sem stuðla að stöðugu verðlagi og varðveita fjármálastöðugleika hér á landi byggist á því að rekstrargrundvöllur hans sé traustur. Yrði frumvarpið að lögum væru þau til þess fallin að geta haft neikvæð áhrif á trúverðugleika bankans til þess að sinna hlutverkum sínum,“ segir í umsögn bankans.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.