Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill fækka ríkisstofnunum um helming og segir nauðsynlegt að „selja banka“ frekar en að ríkisvæða tryggingarstofnanir.
Orðin lét hún falla á fundi Sjálfstæðisflokksins á Hilton Reykjavik Nordica í dag. Vísar hún þarna annars vegar til kaupa Landsbankans á TM, sem hún mótmælti harkalega eftir að kaupin höfðu þegar verið samþykkt. Hins vegar vísar hún til áætlaðrar sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Þórdís hefur sagt að hún myndi einungis styðja kaupin ef Landsbankinn yrði einkavæddur, en þeirri uppástungu höfnuðu Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
„Við þurfum ekki að eiga banka, við þurfum að tryggja að regluverkið sé öruggt, samkeppnishæft og skýrt. Við þurfum ekki ríkisvætt tryggingafélag, við þurfum að selja banka,“ sagði Þórdís Kolbrún í ræðu, en hún er nýstigin úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu og aftur orðin utanríkisráðherra.
Ágreiningur ríkir um hvort upplýsingaskylda Landsbankaráðs gagnvart Bankasýslunni hafi verið uppfyllt, en eins og mbl.is greindi frá í gær hyggst Bankasýslan skipta út öllu Landsbankaráði.
Bankasýslan segir kaupin fara gegn eigendastefnu ríkisins og að ekki hafi verið viðhöfð upplýsingagjöf í samræmi við samning um markmið í rekstri bankans. Á meðan segir bankaráðið að upplýsingaskylda sín hafi verði uppfyllt.