Stjórn Sýnar samþykkti á stjórnarfundi félagsins í dag að hætta frekari skoðun á framtíðareignarhaldi á rekstrareiningunni Vefmiðlar og útvarp.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn til Kauphallarinnar. Um nokkurt skeið hefur verið þekkt að miðlar Sýnar, þ.e. útvarpssviðið ásamt vefmiðlinum vísir.is, hafi verið til sölu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa nokkrar þreifingar átt sér stað milli Sýnar og fyrirhugaðra kaupenda að miðlunum.
Fjölmiðlaeiningum Sýnar var í fyrra skipt upp í tvær rekstrareiningar, annars vegar Vefmiðla og útvarp og hins vegar Stöð 2. Þá fékk stjórn Sýnar Kviku banka til að vinna greiningu á rekstri og virði Vefmiðla og útvarps ásamt því að sjá um miðlun á afmörkuðum fjárhagsupplýsingum til mögulegra fjárfesta.
„Vegna nýrra áherslna í rekstri Sýnar með tilkomu nýs forstjóra og nýrrar stjórnar teljum við mikil verðmæti falin í framtíðartækifærum þessarar einingar. Því hefur verið ákveðið að hætta við skoðun á nýju eignarhaldi vefmiðla og útvarps en þess í stað verður lögð aukin áhersla á bættan rekstur félagsins,“ segir í tilkynningunni sem send var út fyrir skömmu.